145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[16:12]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur seinna andsvar um sömu spurningu sem snýr að rannsóknum. Ég náði kannski ekki að svara fyllilega í fyrra andsvari um Alþingi fremur en framkvæmdarvaldið og þá vísar hv. þingmaður í þann starfshóp sem hæstv. ríkisstjórn hefur skipað og hæstv. ráðherra. Ég fagna því að sá hópur var skipaður og var alveg í anda þeirrar þingsályktunartillögu sem vinstri grænir lögðu fyrir þingið sem ég var afar hrifinn af vegna þess að hún var markmiðssett og ég tel að við þurfum að átta okkur á því hversu umfangsmikill þessi vandi er og hver áhrifin eru á hagkerfi okkar. Inntakið í nýjum lögum um rannsóknarnefndir á vegum Alþingis er auðvitað að við förum í slíkar rannsóknir með markvissari hætti og höldum kostnaði í lágmarki. Þess vegna held ég að það sé tækifæri í því að sjá hverju fram vindur með starf starfshópsins og samvinnu við embætti ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra þannig að hægt verði að nýta þær upplýsingar ef þingið ákveður svo. Ég held að sú umræða verði að fara fram eftir sem áður, þ.e. þingið verði að ákveða á hverjum tímapunkti hvort þessi rannsókn eigi að fara fram á vegum þingsins. Þá held ég að sé afar gott í þeirri samvinnu sem mun verða á milli starfshópsins og skattembættanna, eins og boðað var um störf starfshópsins, að þær upplýsingar sem koma fram þar geti nýst, ef þinginu sýnist að (Forseti hringir.) taka þurfi málið lengra og rannsókn þurfi að fara fram á vegum þingsins.