145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[16:15]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sérstaklega að þetta mál sé komið á dagskrá og vil hrósa hæstv. fjármálaráðherra fyrir að bregðast við þeim tíðindum sem urðu þegar öll þessi gögn lágu fyrir. Ég hafði hugsað mér að fjalla örstutt um málið en geri mér grein fyrir að nefndin mun fara mjög vel yfir það. Ég vil þó beina því strax til efnahags- og viðskiptanefndar að skoða hvort hugsanlega sé tilefni til að ganga lengra en gert er í frumvarpinu. Hæstv. fjármálaráðherra lýsti því ágætlega hér í ræðu að það væri verið að ganga mjög langt, sem ég fagna, en hann taldi ekki tilefni til að banna þetta alfarið og setja þessu endanlegar skorður. Ég held að það ætti að skoða það alvarlega hvort ekki sé rétt að gera slíkt.

Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á skattalögum til að sporna við skattsvikum vegna eignarhalds í lágskattaríkjum. Til dæmis er fjallað um takmörkun á nýtingu rekstrartaps félaga í lágskattaríkjum til frádráttar tekjum, takmörkun á samruna og skiptingu yfir landamæri, frekari skýringar á CFC-ákvæðinu, sem fjallar um skattlagningu aðila sem eiga beina og óbeina eignaraðild að félögum, sjóðum eða stofnunum sem eru heimilisföst í lágskattaríkjum. Til umfjöllunar er ríkari upplýsingaskylda fjármálastofnana, sem manni finnst nú eiginlega vera borðleggjandi í þessu öllu saman, og lögmanna; lenging heimildar til endurákvörðunar skatta, efling áhættustjórnunar og aukin greiningarvinna. Þá er lagt til að innheimtumanni ríkissjóðs verði fengnar ríkari heimildir til að afla upplýsinga í því skyni að greina áhættu fyrr en ella. Síðan eru í þessu frumvarpi lagðar til ýmsar breytingar á tollalögum, er varða meðal annars heimildir tollyfirvalda til vinnslu og miðlunar persónuupplýsinga. Menn hafa velt því fyrir sér hvort tilefni sé til að ganga lengra, hvort hægt sé að koma í veg fyrir skattsvik og skoða þetta í víðtækara samhengi. Ég skildi orð hæstv. fjármálaráðherra á þann veg að hann teldi að fara þyrfti í þá vinnu á komandi missirum. Ég fagna þeim orðum og tek undir þau og tel afar mikilvægt að Alþingi leggi af stað.

Tilefni frumvarpsins eru upplýsingar sem hafa komið fram um eignir Íslendinga í skattaskjólum og möguleg undanskot frá skatti. Það er afar jákvætt að sjá þessi tafarlausu og afdráttarlausu viðbrögð af hálfu íslenskra stjórnvalda. Auðvitað er það líka, eins og kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra, leyndin sem skiptir gríðarlega miklu máli í þessu; að menn skuli leyna eignum og ekki sjá ástæðu til að vera með þær inni í íslensku hagkerfi er gríðarlega slæmt og allir eru sammála um að því þurfi að breyta. Um síðustu aldamót áttuðu skattyfirvöld sig á því að þeim framteljendum færi fjölgandi sem hefðu yfirráð yfir erlendum lögaðilum sem eru skráðir á lágskattasvæðum. Fram komu vísbendingar á framtölum um slíkar breytingar. En ekki skipti síður máli að á þessum árum voru til meðferðar mál þar sem við húsleit og haldlagningu gagna komu fram upplýsingar sem gáfu til kynna að hlutaðeigandi væri með skráðar eignir á aflandssvæðum en framtalsskilum um slíkt væri ábótavant. Þetta eru upplýsingar sem ég hef úr grein sem er rituð af Skúla Eggerti Þórðarsyni ríkisskattstjóra. Hann bendir á að hluti framteljenda sem átti slíkar eignir hafi uppfyllt lögbundna skyldu sína með því að gera grein fyrir eignarhaldinu á þeim tekjum sem af því stöfuðu og hafi þannig staðið skil á skattgreiðslum sínum, en flestir sáu þó enga ástæðu til að geta um þær eignir sínar sem komið hafði verið fyrir með framangreindum hætti. Þeir hafa væntanlega talið sér vera óhætt með fjármuni sína í aflandsbælum í skjóli fyrir afskiptum skattyfirvalda.

Skúli veltir því fyrir sér hvort útrásin margfræga hafi þurft á slíkri leynd að halda og hvort hún hafi samhliða viðskiptagerningum falist í því að koma fjármagni undan skattlagningu eða verið af öðrum hvötum. Hann nefnir sérstaklega leyndina. Ég held að þar liggi aðalatriðið, að leyna eigum. Hann segir að leyndin ein og sér, til að mynda um eignarhald í stórum fyrirtækjum, geti tæplega átt sér eðlilegar skýringar. Hvernig sem á er horft hafi falist í þessu fyrirkomulagi að skattgreiðslur eigenda yrðu til langs eða skamms tíma annaðhvort engar eða margfalt lægri en ella hefði verið. Hann veltir upp spurningu, hvort ástæða sé til að spyrja um þátt íslensku fjármálafyrirtækjanna í slíkri skipulagningu, en mörg þeirra ráku umsvifamikla starfsemi í Evrópu í skjóli þarlendrar bankaleyndar þaðan sem leiðir lágu meðal annars til Panama og Bresku Jómfrúreyja. Það kerfi sem byggt var upp af fjármálafyrirtækjum, með eða án viðeigandi ráðgjafar, hafi reynst býsna umfangsmikið eins og kom í ljós þegar menn áttuðu sig á því hvað um væri að ræða. Hann segir enn frekar að allt sé þetta með einum eða öðrum hætti spunnið upp með leyndina að leiðarljósi. Ef menn hafa leyndina að leiðarljósi sé afar stutt í blekkingar til að hindra að sannleikurinn komi í ljós.

Það er í raun áhyggjuefni, ef maður veltir því fyrir sér, að fram að árinu 2008 hafi það einkum verið skattyfirvöld sem hafi lýst yfir áhyggjum af þróun mála, að þetta hafi komið fram í skýrslu starfshóps fjármálaráðherra um umfang skattsvika sem skilaði greinargerð um athuganir sínar á árinu 2008. En ég fagna því sérstaklega í þessu frumvarpi — lög um þessi atriði, einkum CFC-skýrslur og annað, virðast því miður hafa verið óskýr — að talið sé rétt að skýra þau ákvæði. Ég hefði reyndar talið að þau ætti að túlka samkvæmt orðanna hljóðan. Ég var afar hissa á því sem kemur fram í greinargerðinni að skýringu samkvæmt orðanna hljóðan hefði ekki verið beitt. En ég skil frumvarpið ekki öðruvísi en svo að nú eigi að breyta því þannig að það sé alveg á hreinu hvað sé leyfilegt og hvað ekki og að mismunandi túlkanir gangi ekki. Hvað sem öðru líður, jafnvel þó að þetta sé löglegt er það leyndin í þessu sem er því miður eitthvað sem ekki er hægt að komast fram hjá. Ég vil enn á ný benda á þessa grein sem Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri og Ingvar J. Rögnvaldsson — ég gleymdi að minnast á hann áðan — vararíkisskattstjóri rita í sameiningu. Þeir segja með réttu að kerfi blekkinganna sé óðum að hrynja sem aumasta spilaborg og að ítrekaðar tilraunir yfirvalda um allan heim til að berjast gegn þessu ástandi með viðræðum, ályktunum og upplýsingaskiptasamningum, sem aflandsríki voru nauðbeygð til að skrifa undir, hafi skilað vissum árangri en ekki nægilega miklum. Hulunni hafi ekki verið svipt frá fyrr en innviðir aflandsbælanna brustu og sýndargerningarnir, leyndin og blekkingarnar, urðu heimsbyggðinni ljósir. Íslendingar sem ekki var áður vitað um hafi komið fram í þessum upplýsingum og það margir að alþjóðaathygli vekur. Það er kannski það sem við höfum áttað okkur á, að um alþjóðlegan skandal er að ræða. Það hefur varla farið fram hjá nokkrum manni í vestrænum heimi að Íslendingar voru því miður þarna ofarlega á blaði. Það er miður. Það mun hafa áhrif á land og þjóð. Það kom strax í ljós eftir að þessar upplýsingar komu fram. Þeir segja:

„Íslendingar voru þannig ekki aðeins mestir og bestir í viðskiptum eins og haldið var fram þegar útrásin stóð sem hæst, með styrkum stuðningi ólíklegasta fólks, heldur virðist Ísland stefna í að setja met í hlutfallslegri þátttöku landsmanna í því alþjóðarugli sem aflandsheimurinn hefur að geyma.“

Þeir segja hér líka:

„Það er sem sagt að koma enn skýrar en áður í ljós að íslenskir athafnamenn hafa ekki dregið af sér við að fela fjármuni og eignarhald fyrir íslenskum yfirvöldum.“

Þeir benda á að það voru ekki aðeins skattyfirvöld sem voru blekkt heldur einnig samkeppnis- og fjármálayfirvöld. Uppsetning á aflandsfélagi ásamt felustjórnendum verður ekki gerð nema með liðsinni fjármálafyrirtækja eða sérfræðinga í hlutaðeigandi löggjöf sem vinna verkin fyrir eigendur fjármagnsins. Þetta virðist hafa verið gert með skipulegum hætti á öllum stigum og ráðgjafarnir voru ugglaust til taks ef yfirvöld fóru að krefjast óþægilegra upplýsinga. Þá er gjarnan gripið til gamalkunnra aðferða. Að tefja, fara undan í flæmingi, jafnvel að gera yfirvöld tortryggileg, og þegar öll sund lokast að hóta starfsmönnum skattyfirvalda. Þeir segja hér orðrétt, með leyfi forseta:

„Nú hefur sannast hið fornkveðna að upp komast svik um síðir, þó með óvæntum hætti væri. Panama-skjölin hafa svipt hulunni af felustaðnum. Þeir sem töldu sig eiga falinn fjársjóð í jörðu að hætti sjóræningja geta tæplega vænst þess lengur að sitja einir að góssinu.“

Ég held að það sé ágætt að hafa þessa grein til hliðsjónar í vinnu nefndarinnar. Þetta eru mætir menn sem mark er takandi á og menn hafa gjarnan vitnað í í umræðunni. Það er miður að lög hafi verið óljós eða óskýr, þ.e. að menn hafi komist upp með að túlka þau á mismunandi hátt í orðræðunni. Ég fagna því sérstaklega að fjármálaráðherra ætlar að taka sérstaklega á því í þessu frumvarpi. Ég ítreka þær vangaveltur mínar hvort hugsanlega sé hægt að ganga lengra. Hvort hægt sé og hvort ekki sé réttast að banna þetta alfarið. Það er einfaldlega ekki hægt að verja það á nokkurn hátt þegar skattyfirvöld og ríkisstjórnir hins vestræna heims eru að gera skurk í því að koma í veg fyrir að glæpafyrirtæki og samtök sem stunda fíkniefnaviðskipti og mansal geymi sjóði sína í þessum aflandsfélögum; og að aðrir skuli gera það líka er því miður eitthvað sem við Íslendingar eigum afar erfitt með að sætta okkur við.

Að öðru leyti óska ég efnahags- og viðskiptanefnd góðs gengis og veit að málið verður í góðum höndum hjá hv. þm. og formanni nefndarinnar, Frosta Sigurjónssyni.