145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[16:30]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég tel að það sé nú varla hægt að ljúka 1. umr. um þetta frumvarp án þess að við fáum að hlýða á hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar. Komið hefur fram hjá öllum sem hér hafa talað í dag að nefndin fór í sérstakan leiðangur til þess að velta því upp hverju þyrfti hugsanlega að breyta til að hægt væri að koma í veg fyrir að menn misnotuðu það sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson kallaði aflandsbæli, til þess að komast hjá því að þurfa að greiða það sem þeim ber til hins íslenska samfélags.

Ég tel þess vegna mjög mikilvægt að fá það fram að hvaða leyti það frumvarp sem hér liggur fyrir rímar við þær 19 tillögur sem upplýst hefur verið í dag að hafi komið fram hjá nefndinni. Mér finnst það sanngjarnt gagnvart okkur sem ekki eigum sæti í efnahags- og viðskiptanefnd en höfum árum saman látið okkur þetta málefni varða. Því velti ég því upp hvort það mundi ekki greiða fyrir störfum þingsins á þessum góða degi ef hv. þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar kæmi hér upp og léti ljós sitt skína.

Það hefur komið fram hjá tveimur hv. þingmönnum Framsóknarflokksins að þeir eru alls óhræddir, jæja, við skulum segja mismunandi óhræddir við að segja skoðun sína á einu kjarnaatriði í þessari umræðu. Það sem ég hef áhuga á að heyra sérstaklega frá þingmönnum stjórnarliðsins og hef spurt þá alla um er hvort þeir telji að það sé mögulegt og rétt í stöðunni að taka stærra skref og einfaldlega banna Íslendingum að eiga reikninga í aflandsbælum, svo aftur sé vísað til ummæla hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar, þar sem íslensk yfirvöld eiga ekki kost á að sannreyna upplýsingar um eignarhald, rekstur og skattgreiðslur. Það er lykilatriði í þessu. Ég held að við séum öll sammála um að það er mjög mikilvægt fyrir Alþingi Íslendinga að stíga það skref til þess að endurheimta traust sem rýrnaði við birtingu Panama-skjalanna. Í því frumvarpi sem hér liggur fyrir til 1. umr. held ég að komið hafi fram hjá öllum sem tekið hafa til máls að að flestu leyti sé það skref í rétta átt. En smám saman held ég að það hafi runnið upp fyrir mönnum að hugsanlega gengur frumvarpið ekki nógu langt. Vissulega er tekið á ýmsum þáttum sem reynslan hefur sýnt að eru ekki nógu góðir. Dæmi um það er að það er verið að breyta umbúnaði CFC-reglnanna. Þær reglur voru settar á síðasta kjörtímabili. Það var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem hafði forgöngu um það. Reynslan hefur sýnt að ganga hefði mátt betur frá því. Þetta var í fyrsta skipti sem lög af þeim toga voru innleidd og er hugsanlegt að við göngum nú miklu lengra og komum í veg fyrir að hægt sé að skjóta sér hjá því að gefa réttar upplýsingar. Sömuleiðis skiptir máli að í þessu frumvarpi er verið að lengja fyrningartíma meintra glæpa, bæði að því er varðar hvenær brotin sjálf fyrnast og líka að því er sektina varðar.

Þetta er allt saman gott og jákvætt en það breytir ekki hinu að áfram búum við við þá staðreynd að þrjú til fjögur ríki samkvæmt upplýsingum skattrannsóknarstjóra á sameiginlegum fundi með þingflokkum stjórnarandstöðunnar sem ekki uppfylla reglur og viðmið OECD. Enn er staðan þannig að það eru einhver ríki þar sem íslensk stjórnvöld geta ekki sannreynt hvort upplýsingar séu réttar sem eigendur aflandsfélaga þar gefa. Er þá ekki rétt að til þess að koma í veg fyrir að þessi aflandsbæli séu með þeim hætti notuð til þess að ræna íslenskt samfélag skattgreiðslum sem því ber að við sláum undir þennan leka og sameinumst um að setja í lög ákvæði sem heimili hæstv. fjármálaráðherra að setja reglur um að í tilteknum löndum sem ekki uppfylla þessa staðla og reglugerðir megi Íslendingar ekki eiga slíka reikninga?

Það er ekki ný hugmynd. Hún hefur árum saman verið á kreiki. Hún hefur margsinnis komið upp eftir að í ljós kom, eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson rakti hérna áðan, upp úr síðustu aldamótum að það eru töluvert margir Íslendingar sem eiga reikninga á slíkum stöðum. Það er að minnsta kosti sterkur grunur, sem er orðinn miklu sterkari eftir birtingu Panama-skjalanna, um að menn noti þessa reikninga í meðvituðum tilgangi til þess að komast hjá því að greiða skatta og skyldur til hins íslenska samfélags. Með því að setja slíkar reglur erum við búin að slá undir það. Þá er einfaldlega ekki hægt að koma sér hjá greiðslum með þeim hætti að íslensk stjórnvöld geti þá ekki í krafti upplýsingasamninga og annarra meðala sem þau hafa tiltæk komist að því með rannsóknum. Það skiptir mjög miklu máli. Þess vegna fagna ég þeirri yfirlýsingu sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson gaf hér undir lok ræðu sinnar og varð þess valdandi að ég taldi ekki þörf á að inna hann frekar eftir því með andsvari, þar sem hann sagði að hann væri í hópi þeirra sem vildu skoða mjög vel hvort það væri ekki hægt.

Svipað sagði hv. þm. Willum Þór Þórsson. Hann sagði að það þyrfti að skoða og gera það í samstarfi við aðrar þjóðir. Varðandi seinni hluta þeirrar fullyrðingar sé ég ekki neina þörf á því að gera það í samstarfi við aðrar þjóðir. Ef engir aðrir vilja taka frumkvæðið eiga Íslendingar einfaldlega að gera það og sýna öðrum þjóðum hvað hægt er. En það vill svo til að að minnsta kosti forustumenn annarra þjóða, eins og t.d. Frakklandsforseti, hafa lýst því yfir að það sé fullur vilji af hálfu viðeigandi stjórnvalda þar í landi til þess einmitt að fara þessa leið. Það tel ég mjög mikilvægt.

Ég tel líka þýðingarmikið að við gerum allt sem við getum til að reyna að ná utan um með hvaða hætti þessi starfsemi er í gangi, þ.e. hversu mikið umfang skattundanskota er í gegnum leiðir af þessum toga. Það er bersýnilega mjög erfitt. Hv. þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram tillögu sem miðar að því að ná þessu. Ég og að ég held allir í stjórnarandstöðunni hafi lýst stuðningi við það. Jú, það hefur komið fram í máli hæstv. fjármálaráðherra og sömuleiðis hv. þm. Willums Þórs Þórssonar að setja eigi niður hóp til að vinna þetta og kanna. En er víst að slíkur hópur hafi einfaldlega lagalegar heimildir til að kafa það djúpt að hann geti náð þessum upplýsingum? Til þess að ná þeim þarf væntanlega að rjúfa bankaleynd. Það þarf að stíga yfir alls konar tálma sem lög t.d. um persónuvernd setja fram í dag.

Ég velti því fyrir mér hvort það sé hugsanlega einungis einn aðili sem gæti farið í þetta verk og hefði til þess nægar heimildir, það væri rannsóknarnefnd á vegum Alþingis í krafti þess frumvarps sem ég hygg að hafi verið hér endanlega samþykkt fyrir nokkrum dögum. Það er alveg ljóst, miðað við ákvæði í því frumvarpi, að sá aðili sem af hálfu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og forseta þingsins yrði falið að fara í slíka rannsókn, hefði nánast ótakmarkaðar heimildir til að fara inn í einkafyrirtæki, banka, og hvert sem er til að ná upplýsingum, svo fremi sem þær verði aldrei settar fram með persónugreinanlegum hætti.

Þess vegna tel ég að efnahags- og viðskiptanefnd eigi að skoða þann möguleika. Ég tel líka að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eigi að ræða í sínum hópi hvort sé ekki þarft verk að beina því til forseta þingsins að slík nefnd yrði sett upp. Með hinum nýju ákvæðum sem um rannsóknarnefndir gilda er það nokkuð vel niðurnjörvað að forseti þingsins, með ráðgjöf frá stofnunum þingsins, þ.e. umboðsmanns og Ríkisendurskoðunar, getur afmarkað viðfangsefni slíkrar nefndar eins þröngt og eins vítt og hann vill. Ég tel þess vegna að skoða þurfi mjög rækilega hvort þetta sé ekki eitt af þeim tækjum sem við í þinginu getum notað, og hugsanlega eina tækið sem við getum notað, til þess að vinna þessar upplýsingar. Það skiptir mjög miklu máli.

Komið hafa fram staðhæfingar sem virðast ekki koma hæstv. fjármálaráðherra neitt á óvart, en komu mér á óvart, um að umfangið sé miklu meira en menn áttuðu sig á áður. Það voru miklar fréttir fyrir mig þegar einn af reyndustu þingmönnum þingsins á sviði fjármála og fjármálatengdra laga upplýsti hér á dögunum að hann teldi að upplýsingarnar sem fram hefðu komið í gegnum hinn panamíska leka væru einungis brot af málinu. Mér heyrðist hæstv. fjármálaráðherra taka undir það með því að hann undirstrikaði að það væri einungis um að ræða eina lögfræðiskrifstofu og þær væru efalítið miklu fleiri. Hvert var mat hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar varaformanns fjárlaganefndar á því? Jú, hann sagðist telja að það sem komið hefði fram í Panama-skjölunum væru 5%. Það eru jú 600–1.200 manns, skilst mér. Þannig að við getum séð út frá því að ef hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur rétt fyrir sér gætu þetta verið á annan tug þúsunda, jafnvel meira.

Hér er bersýnilega um að ræða mjög vítt upptökusvæði sem þarf að skoða.

Fram kom í upprifjun hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar hér áðan að það var upp úr síðustu aldamótum sem íslenskar eftirlitsstofnanir komust að raun um, eiginlega af hendingu, eins og mér skildist af lestri hv. þingmanns, hversu útbreitt þetta vandamál var. Það uppdagaðist þegar menn lögðu hald á gögn og gerðu húsrannsóknir. Þá komu þær upplýsingar sem eins konar aukaafurð af því sem menn voru að skoða. Það var þá sem það rann upp fyrir þessum eftirlitsstofnunum að þarna væri um útbreitt vandamál að ræða. Sama hefur nú gerst meðal annarra þjóða.

Ég vil að endingu leggja áherslu á það sem ég hef gert að áhersluatriði mínu í gegnum alla þessa umræðu og haldið fram árum saman, að það á að banna Íslendingum að eiga reikninga í aflandsbælum í löndum sem ekki eru reiðubúin til að setja lög sem tryggja að við getum fengið staðfestingu á upplýsingum sem eigendur reikninganna veita. Röksemdin gegn því var alltaf hin sama. Menn sögðu: Þetta er ekki hægt. Þetta má ekki út af EES-reglum. Þegar Panama-skjölin voru síðan birt og mikill skandall blossaði upp í öllum löndum heimsins að heita má og umræðan kom aftur upp gagnvart þessari hugmynd hér á landi með þeim hætti að bann við slíkum reikningum væri ekki hægt gagnvart EES, þá gerðist það sem eru engin fordæmi fyrir, ESA gaf út sérstaka yfirlýsingu að eigin frumkvæði og lýsti því yfir að það væri ekkert í reglum EES sem kæmi í veg fyrir að þetta yrði gert. Það er þess vegna sem ég segi: Núna er opinn gluggi, færið er fyrir hendi og það er mjög mikilvægt að þær nefndir þingsins sem um þetta véla fari í það að skoða hvort ekki sé best að fara þessa leið, leið sem felst í því að setja inn ákvæði í lög sem veita hæstv. fjármálaráðherra heimild til að banna með einfaldri reglugerð að Íslendingar eigi reikninga í þeim löndum sem ekki uppfylla tiltekin skilyrði. Það er ákaflega mikilvægt.

Síðan að lokum: Ég tel líka, með tilliti til tillögu Vinstri grænna um að kortleggja umfang þessa vanda, að eftirlits- og stjórnskipunarnefnd eigi að skoða mjög rækilega hvort langbesta leiðin til að gera það felist ekki í því að setja upp sérstaka rannsóknarnefnd til þess að vinna það verk. Slík nefnd hefði allar þær heimildir sem þyrfti til þess að fá allar þær upplýsingar sem gætu orðið til þess að við næðum að kortleggja þennan vanda eins og við þurfum.