145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[16:44]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir snaggaralega ræðu og góða punkta. Ég hlustaði af athygli, ég hef setið undir umræðunni í allan dag og tekið niður ábendingar um ýmislegt. Beint var til mín spurningu, vil ég trúa, og ég kem upp í andsvar til að svara henni. Ég tel vissulega koma til greina tæknilega að setja bann við því að Íslendingar eigi í aflandsfélögum eða eigi reikninga sem eru bak við leynd og múra og annað slíkt, en framkvæmdaratriðið gæti vafist fyrir okkur. Til dæmis hefur verið bent á að þótt hægt væri að beita slíku banni gegn þekktum aflandseyjum, á Bresku Jómfrúreyjunum eða eitthvað slíkt, væri erfiðara að beita slíku banni gegn EFTA-ríkjum, sem eru mörg hver þekkt skattaskjól, ríkjum eins og Lúxemborg, Möltu, Liechtenstein, sem eru ekki mjög dugleg að skipast á upplýsingum við okkur og hefur verið kvartað yfir því. Þá mundi ég vilja spyrja þá ESA-menn, sem voru svo duglegir að tjá sig um að það væri engin fyrirstaða ef hér væri bannað að Íslendingar ættu fyrirtæki í Lúxemborg. Hvað telur hv. þingmaður að kæmi út úr því? Ég tel að sjálfsögðu að við eigum að skoða alla möguleika í þessu og taka nokkuð djarflega á því.

Í meðferð þessa frumvarps sem nefndin fær munum við að sjálfsögðu kanna hvaða annmarkar eru á því að gera þetta. Hugsanlega eru þessar leiðir færar í einhverjum tilfellum, þó er greinilega ekki hægt að útiloka að erfitt geti verið að banna Íslendingum að eiga eignir í þeim skattaskjólum sem Tax Justice Network samtökin telja vera einna stærst í heiminum, sem eru Sviss, Bandaríkin, Hong Kong og Þýskaland.