145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[16:59]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að undirstrika að ég átti sæti í nefndinni þegar hún ákvað að vísa hinu ágæta máli um þunna eiginfjármögnun til ráðuneytisins, ríkisstjórnarinnar, til frekari vinnslu. Við gerðum okkur grein fyrir því að þetta væri flókið mál sem þyrfti að útfæra mjög vandlega.

Ég hef heyrt ráðherra málaflokksins segja frá því að vinna sé í gangi en hún sé snúin og taki tíma. Ég veit ekki hvort það mundi hafa áhrif eða flýta fyrir ef nefndin mundi enn á ný vísa málinu til ráðuneytisins. Ég hef ekki trú á öðru en að það sé vilji í öllum flokkum til að setja um þetta reglur.

Ég mundi samt vilja rifja upp að fyrir ekki löngu síðan voru samþykkt í þessum þingsal lög um nýfjárfestingar. Þá gerði, held ég, einn þingmannanna athugasemd við að ekki voru gerðar miklar kröfur um eigið fé í þeim fyrirtækjum sem áttu að fá ívilnanir hingað til þess að hefja hér einhverja starfsemi, iðnað, skapa störf í héruðum. Þá fannst mér erfitt að fá hljómgrunn í salnum fyrir því að í þeim lögum yrði gerð lágmarkskrafa um eigið fé og líka krafa um að það væri einhvers konar gjaldeyrisjöfnuður fyrirsjáanlegur, að hann væri jákvæður af þessari aðgerð, að þetta væri ekki einhvers konar fyrirtæki sem kæmu hérna inn, fjármagnaði sig hjá íslenskum bönkum og gerði og græjaði og hagnaðurinn væri síðan tekinn úr landi í formi vaxta.

Ég held að við þurfum að vera mjög vakandi á öllum sviðum. Við erum nægjanlega haukfrán í þinginu í því að stoppa þá þunnu eiginfjármögnun sem reynir að læðast inn.

Ég fylgi þessu máli alveg 100%. Ég tel að við þurfum að setja okkur reglur í þessu og við þurfum að fara eftir þeim.