145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[17:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega hárrétt sem hv. þingmaður segir að við ræðum oft frumvörp frá ráðherrum, í það fer mestur tími okkar. Oft og tíðum koma athugasemdir eða breytingar sem ekki gefst tími til að taka nægjanlega afstöðu til, eins og hv. þingmaður nefnir.

En í því tilfelli sem ég nefndi í andsvari var um að ræða frumvarp sem hafði fengið talsverða skoðun í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, fengið ítarlegar efnislegar umsagnir. Eins og ég nefndi er búið að gera atlögu að því að vinna úr þeim umsögnum þannig að ég tek svar hv. þingmanns sem svo að það sé a.m.k. vilji til þess að taka það til umræðu í nefndinni. Nefndin gæti þá borið þetta breytta frumvarp undir fjármálaráðuneytið.

Þetta er auðvitað ekki ásættanleg. Ríkisstjórnin situr í umboði meiri hluta Alþingis og fær mjög skýr skilaboð frá þeim meiri hluta, að mig minnir mótatkvæðalaust í þessu tilviki, þingmenn allra flokka studdu það að ríkisstjórnin tæki þetta mál áfram.

Þó að vissulega sé mikilvægt að fylgjast með því sem er að gerast á alþjóðavettvangi, eins og hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra, eru fjöldamörg ríki, samstarfsríki okkar í OECD, búin að setja sér reglur um þunna eiginfjármögnun. Það er því ekkert sem hindrar okkur í að ljúka þessu máli.

Þetta er eitt af því sem kom klárlega fram á fundum efnahags- og viðskiptanefndar að þyrfti að taka á. Um þetta hefur verið fjallað í fjölmiðlum, í samfélaginu og bent á að þarna sé pottur brotinn.

Ég mun fá í ljósi hvatningar hv. þingmanns að taka þetta mál upp í efnahags- og viðskiptanefnd því að það er mikilvægt að við nýtum ferðina, ef svo má að orði komast, og reynum að gera það besta úr þessu. Það er algjörlega hárrétt sem hefur komið fram hjá hv. þingmönnum að flestir eru sammála um að hér séu mikilvæg og góð skref tekin, en það er hægt að ganga lengra og þetta er eitt af stóru málunum í þeim efnum.