145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[17:09]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Mér vannst ekki tími áðan í fyrri ræðu minni til að fjalla um eitt atriði sem ég hjó eftir í ræðu hæstv. fjármálaráðherra. Hann minntist á að taka þyrfti fastari tökum það sem í daglegu tali er nefnt kennitöluflakk. Þá vildi ég benda á að hér á þingi liggur fyrir frumvarp um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög þar sem tekið er á kennitöluflakki. Fyrsti flutningsmaður er Karl Garðarsson en á málinu auk hans eru hv. þingmenn Vigdís Hauksdóttir, Höskuldur Þórhallsson, Páll Jóhann Pálsson, Elsa Lára Arnardóttir, Haraldur Einarsson, Þórunn Egilsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Brynhildur Pétursdóttir, Helgi Hjörvar og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Það er því þverpólitísk sátt um að taka á kennitöluflakki.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta frumvarp, þó að það sé stutt, sé afar vandað og vel úr garði gert og geti í einfaldleika sínum spornað verulega við kennitöluflakki sem ég held að allur þingheimur sé reiðubúinn að fallast á að er þjóðarmein. Það er einfaldlega þannig að tekjur sem hafa tapast vegna skattundanskota hlaupa á um 80 milljörðum samkvæmt rannsóknum. Þá erum við eingöngu að tala um skattundanskot í atvinnustarfsemi hér á landi. 80 milljarðar eru nánast það sama og við borgum í vexti af skuldum þjóðarbúsins á einu ári, þetta eru sambærilegar tölur. Þetta eru gríðarlega háar tölur. Ef við gætum komist fyrir þetta gætum við í raun komist langleiðina með að greiða niður skuldir ríkissjóðs sem þessari ríkisstjórn hefur reyndar tekist afar vel við.

Við erum oft að tala um skuldir hins opinbera, vanskil á sköttum og gjöldum, en einnig skuldbindingar við aðra einkaaðila, birgja og fleiri sem og vangoldin laun, sem er kannski alvarlegasti hluturinn í þessu öllu saman enda erum við með sérstök ákvæði í lögum sem gera að verkum að ef menn skila ekki inn skýrslum um vangoldin laun og skatta þá geta þeir einfaldlega verið settir í fangelsi.

Það liggur fyrir að þessi háttsemi felur í sér samfélagslegt tjón. Það sem verra er, hún bitnar kannski fyrst og fremst á þeim sem standa heiðarlega að sínum rekstri. Það er akkúrat það sem við erum að fjalla um í dag, um mál og málefni sem eiga að koma í veg fyrir skattundanskot, leynd á fjármagni, við erum að setja skorður við því að menn geti átt eða leynt eigum sínum í aflandsfélögum. En þessi háttsemi, auk þeirrar sem ég lýsi hér, ýtir undir vantraust í garð atvinnulífsins og samkeppnisstaða þeirra sem fylgja leikreglum skekkist. Það er það slæma í þessu öllu saman. Slík háttsemi eykur kostnað atvinnulífsins og einstaklinga í landinu vegna þess að viðbrögð stjórnvalda eru að jafnaði að auka eftirlit og það eykur kostnað atvinnulífsins.

Í frumvarpinu sem fjallar um kennitöluflakk og ég kom inn á er lagt til að farin verði hófsöm leið en þó þannig að settar verði takmarkanir við því hvað sömu einstaklingar geti átt í mörgum félögum á tilteknu árabili. Auðvitað er í lagi að fara yfir það. En það er líka reynt að sporna við því að hinir svokölluðu útfararstjórar séu fengnir til að koma inn í félög þegar ljóst er að illa gengur og keyra þau í þrot. Þetta mein, ásamt því sem við erum að taka á hér, er eitthvað sem við verðum að taka á. Af því að ég heyrði hæstv. fjármálaráðherra koma sérstaklega inn á kennitöluflakkið fannst mér rétt að benda á að frumvarp (Forseti hringir.) okkar er til staðar. Ég held að það sé þannig úr garði gert að hægt sé að samþykkja það á Alþingi. En ég fagna því að sú umræða hafi verið tekin hérna vegna þess að þetta er þjóðarmein sem þarf að uppræta.