145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[17:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Svo háttaði til að ég var á forsetastóli þegar hæstv. fjármálaráðherra eyddi hér nokkuð löngu máli í að rekja ívilnanir vegna nýfjárfestingarverkefnis á Bakka við Húsavík. Hugsanlega telst mér málið eitthvað skylt þar sem ég var atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra þegar gengið var frá samningum við fyrirtækið og beitti mér í samstarfi við þáverandi fjármálaráðherra um þá fyrirgreiðslu sem er í þeim fjárfestingarsamningi og því ætla ég að fara aðeins yfir það. Ég held að hæstv. fjármálaráðherra þurfi aðeins að passa sig að lenda ekki á villigötum og jafna ekki algjörlega saman því þegar um er að ræða fjárfestingarstuðning til nýfjárfestingarverkefna í algerlega afmarkaðan tíma eins og þarna á við, í tíu ár, og til að gera mögulegar fjárfestingar og uppbyggingu á nýjum svæðum og jafnvel atvinnulega köldum svæðum eins og þarna átti í hlut.

Það er vissulega rétt og á það hefur aldrei verið dreginn dulur að stjórnvöld, bæði ríkisvald og sveitarfélag, urðu að teygja sig talsvert í því verkefni til að gera það að veruleika. Það var talið réttlætanlegt, m.a. með þeim rökum að þarna væri hægt að stuðla að atvinnuuppbyggingu á svæði sem hefur verið í vörn. Með þessu væri hægt að fjölga valkostum fyrir staðsetningu lítilla og meðalstórra iðnfyrirtækja og fleiri ástæður mætti nefna sem gerðu að verkum að ívilnunarsamningurinn væri ívið ríkulegri en í mörgum öðrum tilvikum.

Hæstv. ráðherra valdi t.d. að nefna ekki ívilnunarsamninga til gagnavera sem Alþingi breytti í meðförum sínum þannig að Ísland var hrakið til baka með þá og komst ekki upp með þá vegna þess að niðurstaða ESA var að þar hefði verið gengið of langt. En það er ekki í tilviki Bakka við Húsavík. Veruleikinn er sá að það var allt saman tekið út af Eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins og staðfest að íslensk stjórnvöld væru vel innan marka hvað varðaði stuðning við þessar aðstæður.

Við hvað er verið að keppa í tilvikum sem þessum? Ég er ekkert sérstaklega hrifinn af því almennt að það sé eitthvert uppboð í gangi um það hversu miklar ívilnanir menn veiti til nýfjárfestingarverkefna en það er munur á afmörkuðum og skilgreindum stuðningi við nýja atvinnuuppbyggingu, t.d. að koma nýjum iðngreinum inn í landið, og almennum reglum um skattlagningu starfandi fyrirtækja. Um það held ég að við hljótum að geta verið sammála. Þannig er það líka alþjóðlega og í hinni alþjóðlegu samkeppni.

Það sem aðilar eins og PCC fyrir norðan eða Thorsil eða einhverjir aðrir annars staðar geta í sumum tilvikum lagt á borðið og hafa gert — og þetta veit ég að hæstv. fjármálaráðherra þekkir — eru ekki bara einhverjar skattalegar ívilnanir á fyrstu rekstrarárunum. Það eru jafnvel beinir styrkir upp á 30–40% af stofnkostnaði viðkomandi verkefnis. Við höfum ekki farið út í það og heimild til slíks sem var í upphaflegum lögum um ívilnunarsamninga var felld út. Ísland átti ekki mikla peninga á þeim árum, 2009–2010, en gat í staðinn rýmkað svigrúmið til að veita meiri stuðning á uppbyggingartímanum og fyrstu rekstrarárunum.

Það er himinn og haf á milli þessarar nálgunar og gömlu fjárfestingarsamninganna sem hæstv. ráðherra kom inn á í einu tilviki. Það er rétt, ég get staðfest það sem hæstv. ráðherra sagði, ég hef séð samninga sem eru þannig að fyrirtækin eru um aldur og ævi varin fyrir því að sæta tiltekinni skattlagningu. Jafnvel þó að Íslendingar ákveði að taka hana upp og láta hana gilda gagnvart öllum öðrum eru til þannig samningar að fyrirtækin eru varin fyrir því. Auðvitað væri slíkt fráleitt og hér er ekkert slíkt á ferðinni. Hér er ekki um varanlegan stuðning eða frávik frá skattareglum að ræða eins og var í tilviki fyrstu stóriðjusamninganna. Þeir endast jafnvel áratugi. Nei, hér er bara um að ræða þennan tímabundna stuðning á uppbyggingartímanum sem tekur til fyrstu tíu áranna. Það er að sjálfsögðu alveg rétt að í því eru fólgnar talsverðar ívilnanir en þær eru langt innan ramma þess sem Íslandi er heimilt að gera, það hefur ESA staðfest, og þær eru enn þá lengra innan ramma þess sem Íslandi er heimilt að gera þegar horft er til þess að uppbyggingin er á svokölluðum byggðaþróunarsvæðum, þ.e. svæðum sem til viðbótar hafa sér það til réttlætingar að flokkast á svokallað byggðaþróunarkort Evrópu.

Þessu vildi ég koma hér inn vegna þess að ég tel að það þurfi a.m.k. að fara varlega í þessum samanburði og að ekki séu endilega sterk rök inn í umræðuna um það hvernig við viljum kljást við aflandsfélögin og þann vanda að blanda því inn í (Forseti hringir.) umræðuna um stuðningsumhverfi við nýsköpun, rannsóknir, þróun eða ívilnunarsamninga vegna nýfjárfestinga.