145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[17:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eftir stendur að núverandi lagarammi um fjárfestingarsamninga er veruleg framför frá því sem áður var vegna þess að hann rammar ívilnanirnar alltaf inn innan tilgreindra tímamarka. Það er rétt sem ég sagði og hæstv. ráðherra gat ekki hrakið það að þegar til ívilnunar kemur, frá og með því að hún verður virk, tekur hún til 10 ára. Svigrúmið frá því að samningar eru undirritaðir og þangað til að þeir koma til framkvæmda í þeim skilningi að rekstur er hafinn er örlítið rýmri þarna en endranær, en það helgaðist af því að þá var ekki enn ljóst hversu hratt áformin mundu ganga eftir, það hafði engin áhrif á 10 ára tímann. Hvort það eru þrjú eða fjögur ár frá því samningur er undirritaður og þangað til ívilnunartímabil hefst ræðst bara af hraða verkefnisins.

Ég er enn þeirrar skoðunar að skynsamlegt sé að fara varlega í þeim samanburði sem hæstv. fjármálaráðherra er dálítið upptekinn af af einhverjum ástæðum. Mér finnst það athyglisvert. Ég ætla að hugsa svolítið betur um það. Hvers vegna er fjármálaráðherra svona mikið í mun að tefla því fram inn í þessa umræðu að Íslendingar séu með sérákvæði í skattalögum, t.d. um að endurgreiða rannsóknar- og þróunarkostnað í nýsköpunarfyrirtækjum? Eða ívilnunarsamninga vegna nýfjárfestinga þegar við erum að reyna að styðja við bakið á nýrri atvinnuuppbyggingu og fá fjárfestingu inn í landið og skapa störf? Eða endurgreiða kostnað vegna kvikmyndagerðar? Hvers vegna gerum við þetta? Það er ekki vegna þess að við séum þar með að skrifa upp á að menn eigi ekki að borga eðlilega skatta og skyldur. Það er vegna þess að við höfum komist að þeirri niðurstöðu að það sé þjóðhagslega hagkvæmt. Það er vegna þess að við erum að ná fram pólitískum markmiðum með þessu. Auðvitað höfum við skattlagningarvald og megum haga þessu þannig. Ef við værum að ganga svo langt í svona efnum að við værum að skaða okkur þá mætti fara að velta málinu fyrir sér. Þetta er annars eðlis en það sem við er að glíma þegar kemur að varanlegum rekstri eða varanlegu undanskoti (Forseti hringir.) eða varanlegri skattsniðgöngu aðila sem oft á tíðum gera það ekki í gegnum neinn atvinnurekstur, heldur flytja einfaldlega (Forseti hringir.) fjármagnið undan því að það verði andlag skattlagningar. (Forseti hringir.) Ég bakka ekki með það að ég held að hæstv. fjármálaráðherra ætti að hugsa sig svolítið um áður en hann fer offari í þessum samlíkingum.