145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

virðisaukaskattur.

758. mál
[17:51]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Atvinnuveganefnd flutti breytingartillögu við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, þ.e. veltumörk skattskyldu og fjárhæðarmörk uppgjörstímabila, í framhaldi af vinnu sinni við frumvarp um heimagistingu og veitingastaði, sem er fylgt eftir hér eftir frekari umfjöllun í nefndinni. Ég vil gera að umtalsefni, virðulegi forseti, og vekja athygli á því sem hér er verið að gera og gögnum sem við fengum frá ríkisskattstjóra eftir að við nefndarmenn báðum um það. Við fengum þau gögn að sjálfsögðu skilmerkilega og faglega uppsett eins og ríkisskattstjóra einum er lagið. Í þeim var staðfestur grunur okkar um miklar útgreiðslur úr ríkissjóði til þeirra sem eru með rekstur undir 1 millj. kr., þ.e. mismunur á útskatti og innskatti í virðisaukakerfinu. Það var staðfest og ég vek athygli á því að með málinu er fylgiskjal, umsögn, þar sem kemur fram að árið 2015 er fjöldi þeirra sem eru með 0–1 millj. kr. í rekstur 8.770. Þeir sem njóta endurgreiðslu úr ríkissjóði voru 1.889. Þeir sem höfðu greitt voru 2.511. Þar kom líka fram að rúmlega 4.000 skil voru með svokallaðri núllskýrslu.

Það sem þarna kemur fram er að fjárhæð sem greidd var vegna þessa rekstrar var um 170 millj. kr. en endurgreiðslurnar voru 1.074 þús. kr. í þessari skattskyldu veltu sem var upp á 1,5 milljarða. Það kemur skilmerkilega fram í nefndarálitinu að útgreiðslur úr ríkissjóði voru 903,4 millj. kr. vegna þessa en rétt er að hafa í huga, eins og ríkisskattstjóri fjallar um, að það geta verið þar aðilar sem hafa verið í fjárfestingum eða koma kannski nýir inn sem eiga þá inni mikinn útskatt á móti innskatti, ef svo má að orði komast.

Það kom fram hjá nefndinni að með því að hækka þessi fjárhæðarmörk upp í 2 millj. kr. og í greinargerð með frumvarpinu sjálfu er farið yfir það hvernig sú upphæð var í byrjun, 100 þús. kr., sem hefur svo hækkað og er færð upp í 2 millj. kr. núna en sú upphæð hefur að sjálfsögðu ekkert breyst á umliðnum árum vegna þess að þessi veltumörk eru ekki vísitölutengd og lækka að raungildi með tíð og tíma eins og gerist hjá okkur.

En í raun og veru má segja, til að einfalda, með rekstur sem er ekki meiri en þetta, að ríkissjóður hefði sparað sér árið 2015 903 millj. kr. í útgreiðslu hefði verið sagt: Nýtur hvorki innskatts né útskatts. Það er rétt að hafa í huga þegar þetta frumvarp er rætt og sú tillaga sem sett er fram um að hækka þetta mark, svo koma einhverjar tekjur á móti þegar rekstur fer að ganga vel, sem betur fer. Það á að vera markmiðið. Tekjur til ríkissjóðs þýða þá að reksturinn gengur vel og skilar til ríkissjóðs eðlilegum hluta af því, sama hvort er í virðisauka eða almennum skatti.

En þetta vildi ég láta koma fram um leið og ég vek athygli á þessari umsögn og skjali frá ríkisskattstjóra sem er ákaflega merkilegt að fara í gegnum vegna þess, eins og hefur komið fram, að þetta er útgreiðsla þar. Hins vegar kemur líka fram að fjöldinn, á bilinu 1–2 millj. kr. er ákveðinn fjöldi en þar er aftur mismunur upp á 210 milljónir sem greiddar eru til ríkissjóðs en samtals álagning hjá öllum þeim sem eru með 4 millj. kr. og undir eru 108 milljónir í greiðslu til ríkissjóðs. Það vekur athygli mína og ég vek athygli á því að sá fjöldi sem er þarna í lægsta milljón króna bilinu, þar voru útgreiðslur upp á þetta en ég ítreka aftur það sem ég sagði: Það kann að vera skýring á árinu 2015 hvað þetta varðar þó svo að maður geti reyndar farið inn í árið 2014, þar var sambærileg upphæð um 1.200 millj. kr. Það er rétt að hafa í huga að þetta er, held ég, breyting sem er til góðs, um leið og hún einfaldar kerfið verður hún þannig líka að hún sparar ríkissjóði útgreiðslur og vonandi verður sá rekstur sem þetta nær utan um það arðbær og góður að hann skilar þá skattgreiðslum eða virðisaukaskatti til ríkissjóðs. Það er kannski það sem er verið að gera, einfalda þetta fyrir þá sem eru með lítinn rekstur. Hitt þarf líka að hafa í huga: Ríkissjóður þarf oft á peningum að halda til ýmissa mála.