145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

789. mál
[18:17]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er aftur flutt tillaga til þingsályktunar af atvinnuveganefnd um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, þ.e. hvernig þeim 5,3% sem tekin eru frá og verða til í þessum skiptipotti er ráðstafað til hinna ólíku potta. Formaður nefndarinnar hefur lýst skiptingunni sem kemur fram í þingsályktunartillögunni og ég þarf því ekki að taka það fram aftur.

Ég ætla þó að segja strax að ég er með fyrirvara við tillöguna, sem er aðallega út af tveimur þáttum. Í fyrsta lagi kemur fram í 8. lið að allt að 1.000 tonn verði lögð til hliðar til sérstakra tímabundinna ráðstafana. Ef það verður gert skerðir það auðvitað hlutfallslega það sem fer í strandveiðar, til stuðnings byggðarlögum, í aflamark Byggðastofnunar, til línuívilnunar, til frístundaveiða og áframeldis á þorski.

Hitt atriðið sem ég geri athugasemdir við kemur fram á bls. 6 í þingsályktunartillögunni, í 11. kafla greinargerðarinnar sem fylgir með, þar sem talað er um skiptimarkað með aflaheimildir. Það er rétt að vekja athygli á því að eiginlega eru tekin 5,3% af öllum fisktegundum í þennan pott, þó ekki öllum, þó þeim sem eru kvótasettar. Síðan er þetta gert þannig að rekinn er skiptimarkaður af Fiskistofu og ráðuneytinu þar sem reynt er að skipta á þeim tegundum sem koma inn í þær höfuðtegundir sem þetta snýst um, þ.e. þorsk, ýsu, ufsa og steinbít. Það hefur komið fram í nefndinni og kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni um reynsluna af þessu, að ekki tekst alltaf að selja þessar litlu tegundir. Við getum tekið sem dæmi loðnu sem er úthlutað en veiðist ekki öll. Þá kaupa útgerðir það ekki, eðli máls samkvæmt, og það gerir þennan mínus sem verður á pottinum. Það er hitt atriðið sem ég geri athugasemdir við núna og hef fyrirvara á. Hér segir að á fiskveiðiárinu 2015/2016 sé útlit fyrir að það vanti 6.400 tonn af þorski og 492 tonn af ufsa svo jöfnuði sé náð. Lögð hafi verið áhersla á að fá meiri ýsu en til þurfti fiskveiðiárið 2015/2016 til þess að leiðrétta það sem á vantaði fiskveiðiárið 2014/2015, en þá vantaði hvorki meira né minna en 738 tonn af ýsu, 610 tonn af steinbít, 412 tonn af ufsa og um 200 tonn af þorski. Á fiskveiðiárinu 2013/2014 vantaði hins vegar um 7.000 tonn af þorski í skiptipottinn.

Komið hefur fram í nefndinni að það gengur ekki í þessu frekar en öðru þegar við erum að tala um sjálfbærar veiðar og vottanir og fleira að við séum með þennan mínus inni. Því segi ég það að annar fyrirvari minn snýr að því hvernig við getum og ætlum að greiða inn á þessa skuld og hvaða aðferð við ætlum að nota. Ég er t.d. ekki sammála því að það yrði skorið niður alveg þvert. Það mundi þýða að lágmarki 20% niðurskurð á úthlutun í pottana um tímabundnar ráðstafanir. Sem dæmi má taka að potturinn með 9.000 tonnum til strandveiða mundi lækka um 1.800 tonn og verða þá aðeins 7.200 tonn, ef farið væri eftir því.

Þetta er fyrirvari minn. Ég hef ekkert að athuga við að málið sé flutt. Ég stóð að því síðast og stend að því að flytja málið vegna þess að öll atvinnuveganefnd flytur það. En fyrir síðari umr. þurfum við í nefndinni að reyna að komast að samkomulagi um hvernig þessi skuld, ef svo má að orði komast, verður greidd upp í þennan pott. Þar eru ýmsar leiðir færar sem ég ætla ekki að gera að umtalsefni hér og nú.

En ég vil svo segja rétt að lokum að skýrslan sem hér er nefnd var unnin af hagfræðingi og dósent við Háskólann á Akureyri og landfræðingi og sérfræðingi hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri, það eru þeir Vífill Karlsson og Hjalti Jóhannesson, og hún er ágæt. Það þarf hins vegar að liggja dálítið mikið yfir henni. Þar kemur fram að almenni byggðakvótinn er talinn skila mestum byggðafestuáhrifum af þeim aðgerðum sem lengst hefur verið beitt en línuívilnun og strandveiðar eru til skiptis í öðru og þriðja sæti eftir því hvaða aðferð er beitt en skelbætur eru taldar sístar til að ná fram áætluðum byggðafestuáhrifum. Skýrslan er mjög faglega unnin og merkilegt og gott plagg en við sem sitjum í atvinnuveganefnd hefðum þurft að hafa meiri tíma til að fara í gegnum hana.

Að því sögðu verð ég að segja að ég set ákveðinn fyrirvara við þær niðurstöður sem þessir sérfræðingar lögðu fram um það sem hér er kallaður sérstakur byggðakvóti Byggðastofnunar sem Byggðastofnun úthlutar til nokkurra sveitarfélaga sem flokkast undir brothættar byggðir. Það er vegna þess, og er sennilega það sem helst veldur þessu hjá skýrsluhöfundum, að reynslan af aðgerðinni er ekki nema þrjú ár og hún er kannski ekki farin að mælast eins vel og ef hún hefði staðið lengur. En ég held því fram að þessi aðgerð þar sem kvóta er úthlutað til ákveðinna byggðarlaga til lengri tíma en eins árs, ef ég man rétt er það til fimm ára, feli í sér miklu meiri festu fyrir byggðarlögin til að byggja á. Ég hef áður sagt það, vegna þess að hér gengur hjá fyrrverandi skipverji á Jökli frá Raufarhöfn, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, og ég ætlaði að gera það að umtalsefni að Raufarhöfn fær 400 tonn, að ég hef séð — hv. þingmaður má alveg fara núna, ég er búinn að hæla honum í bili um veru hans á Jökli frá Raufarhöfn. Ég hef séð hjá fyrirtæki sem rekur fiskvinnslu á Raufarhöfn, GPG á Húsavík, áætlun með þessum kvóta plús það sem aðrir en fyrirtækið leggja til og ég hef aldrei áður séð áætlun um að veita allt að 40 manns vinnu við fiskvinnslu á Raufarhöfn í allt að 11 mánuði á ári, fyrir utan sumarfrí auðvitað. Hún kom í framhaldi af þessari úthlutun. Raufarhöfn fær 400 tonn úr pottinum til nokkurra ára. Slíkt fyrirkomulag gerir að verkum að fyrirtæki geta byggt sig allt öðruvísi upp og búið til framtíðarvinnuplan og framtíðarstefnu hvað þetta varðar.

Vafalaust á þetta líka við um fleiri sveitarfélög sem fá aflamark Byggðastofnunar en þau eru sex í Norðausturkjördæmi og mér sýnist fjögur í Norðvesturkjördæmi, þ.e. Þingeyri, Flateyri, Suðureyri og Drangsnes í Norðvesturkjördæmi og Hrísey, Grímsey, Raufarhöfn, Bakkafjörður, Breiðdalsvík og Djúpivogur í Norðausturkjördæmi. Hér kemur Djúpivogur inn með 800 tonn. Ég verð að segja að þau 800 tonn sem við gátum sett þarna inn vegna þessara aðgerða eru náttúrlega dropi í hafið miðað við það sem fór frá Djúpavogi þegar fyrirtækið Vísir í Grindavík fór með starfsemi sína þaðan. Þetta er, getum við sagt, plástur á það sár eða framlag til að reyna að vega á móti því. Þess vegna segi ég: Ég held að það muni gerast áfram að fært verði jafnvel meira inn í þessa varúðarpotta til að koma til móts við brothættar byggðir. Þá er bara spurningin: Hvar á að taka það? Nú tel ég eins og ég sagði áðan að við verðum að bíða með þessi 1.000 tonn sem lagt er til að taka til tímabundinna ráðstafana. En ég segi að lokum: Ég held að við þurfum að finna aðra og betri leið til að láta þetta kerfi ganga upp, þar með talið uppboð á mörkuðum o.fl., þannig að potturinn geti verið í jafnvægi.

Þetta var ræða mín við fyrri umr. tillögunnar og ég ítreka það sem ég sagði áðan, málið kemur aftur til atvinnuveganefndar til frekari vinnu og frekari tillögur (Forseti hringir.) munu væntanlega koma frá nefndinni og fyrirvari minn um það sem ég hef hér lýst.