145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

húsaleigulög.

399. mál
[20:01]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir hennar framsögu við þetta mál aðeins fyrr í dag. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994, með síðari breytingum. Þetta frumvarp er eitt af fjórum húsnæðisfrumvörpum sem hafa verið í hv. velferðarnefnd á þessum þingvetri.

Meginmarkmið frumvarps þessa er að auka réttaröryggi leigjenda og koma á meiri festu í samskiptum leigjenda og leigusala svo að komast megi hjá ágreiningi síðar. Áhersla er lögð á að um frjálsa samninga er að ræða milli leigusala og leigjanda en jafnframt á nauðsyn þess að ákveðinn lagarammi gildi um þá samningsgerð. Sem dæmi má nefna að leitast er við að samræma þau úrræði sem leigjandi getur gripið til þegar leiguhúsnæði er ábótavant hvort sem er í upphafi leigutíma eða síðar á leigutíma í kjölfar vanrækslu leigusala á viðhaldi hins leigða húsnæðis. Enn fremur eru lagðar til breytingar á því hvernig staðið skuli að úttektum á hinu leigða húsnæði þannig að aðilar komi sér saman um úttektaraðila í stað þess að leita til byggingarfulltrúa í því sveitarfélagi þar sem húsnæðið er. Með það fyrir augum að leitast við að tryggja betur eftirlit með íslenskum leigumarkaði er lagt til að úrlausnir kærunefndar húsamála í málum sem lúta að gerð og framkvæmd leigusamninga verði bindandi fyrir aðila máls. — Svona leit frumvarpið út þegar það kom til hv. velferðarnefndar.

Frumvarpið var einnig lagt fram á síðasta löggjafarþingi og kom til efnislegrar meðferðar hér í þinginu. Hv. velferðarnefnd kláraði nefndarálit um málið en þrátt fyrir það náði það ekki fram að ganga. Því var það lagt fram að nýju með nokkrum breytingum. Þær breytingar eru byggðar á þeim umsögnum sem bárust um málið þegar það var lagt fram á síðasta löggjafarþingi.

Eins og gengur og gerist er ekki hægt að verða við öllum umsögnum sem berast en tekið var tillit til þeirra eftir því sem frekast var unnt. Má í því samhengi nefna athugasemd sem brugðist var við en athugasemdir bárust meðal annars um 3. mgr. 2. gr. Hún varðar undanþágur frá húsaleigulögum, þ.e. hvaða leiguaðilar það eru sem geta samið sig frá lögunum, t.d. upp á uppsagnarfrest að gera. Í því máli sem lagt var fram á síðasta löggjafarþingi var lagt til að undanþágan yrði felld brott, að engir leiguliðar gætu samið sig frá húsaleigulögum. Þetta ákvæði fékk á sig mikla gagnrýni þegar málið var til vinnslu í hv. velferðarnefnd á síðasta löggjafarþingi. Brugðist var við þeim athugasemdum og hætt var við að fella ákvæðið alveg brott. Þess í stað var það þrengt verulega. Ástæða þess að verið er að þrengja þetta ákvæði frá gildandi lögum er að það þekkist því miður að almenn leigufélög hafa verið að nýta sér undanþáguna og gera leigusamninga þar sem ákvæði húsaleigulaga hefur ekki verið fylgt og því í einhverjum tilvikum brotið á réttindum leigjenda eins og með styttri uppsagnarfresti á leigusamningum en lög kveða á um.

Hins vegar er það svo í einhverjum tilvikum að þessi undanþáguheimild verður að vera til staðar. Þess vegna var brugðið á það ráð að leggja til undanþáguheimild sem nær til áfangaheimila. Sú undanþága er sett inn til að semja sig frá gildandi húsaleigulögum. Hún er veitt vegna sérstaks eðlis og tilgangs starfsemi. Samkvæmt ákvæðinu er undanþága til að víkja frá einstökum ákvæðum laga þessara með samningi. Í þeim samningum ber að geta þeirra frávika sem um ræðir. Með áfangaheimili er átt við dvalarheimili sem starfrækt er með það að markmiði að stuðla að endurhæfingu einstaklinga sem í flestum tilfellum hafa verið á meðferðar- eða endurhæfingarstofnunum eða í fangelsi. Við vinnslu málsins var þó ákveðið að útvíkka aðeins þetta umrædda ákvæði og nær undanþágan nú jafnframt til leigu íbúðarhúsnæðis til námsmanna á vegum lögaðila sem ekki er í hagnaðarskyni og hefur þjónustu við námsmenn að meginmarkmiði. Þessi breyting er gerð því að slíkri leigu er almennt ætlað að vara um afmarkaðan tíma og í beinum tengslum við nám leigjanda. Nefndin telur að þess konar sérsjónarmið geti átt við um slíka leigu þannig að réttlætanlegt sé að heimila frávik frá almennum ákvæðum laganna.

Framsögumaður málsins, hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir, fór ítarlega yfir nefndarálitið. Hún fór þar vel yfir aðra þætti sem nefndin leggur til við vinnslu málsins og koma fram í nefndaráliti allra hv. þingmanna í velferðarnefnd. Þar eru atriði sem snúa að samskiptum leigutaka og leigusala, að viðhaldi leiguhúsnæðis, riftun leigusamninga og úttektum á leiguhúsnæði og kærunefnd húsnæðismála. Öll þessi atriði eru sett fram til að reyna að minnka ágreining sem risið hefur vegna leigusamninga og til að skýra betur stöðu leigutaka og jafnframt leigusala.

Virðulegur forseti. 46. gr. frumvarpsins fjallar um nauðungarsölu og í greininni er lögð til viðbót við lög um nauðungarsölu, varðandi lög nr. 90/1991 um að leigjandi geti verið tímabundið áfram í íbúðarhúsnæði eftir nauðungarsölu þess gegn greiðslu leigu sem svarar að mati sýslumanns til hæfilegrar húsaleigu. Með þessu ákvæði er lagt til að leigjendum verði tryggður sambærilegur réttur og eigendum íbúðarhúsnæðis sem selt er nauðungarsölu. Lagt er til að við nauðungarsölu á íbúðarhúsnæði sem leigjandi hefur til eigin nota samkvæmt leigusamningi skuli hann njóta réttar til að halda notum af því út leigutíma eftir atvikum að undangenginni uppsögn en þó aldrei lengur en í 12 mánuði frá samþykki boðs gegn greiðslu leigu sem svarar að mati sýslumanns til hæfilegrar húsaleigu. Þannig er gert ráð fyrir að leigjandi eigi ekki rétt til að hafa afnot af íbúðarhúsnæðinu eftir að tímabundinn leigusamningur rennur út á innan við ári frá samþykki boðs. Hið sama á við ef heimilt er að segja leigusamningi upp á þessu tímabili og uppsagnarfresturinn rennur út á tímabilinu. Ef hvorugt af þessu á við er gert ráð fyrir að leigjandi geti haft afnot af húsnæði í allt að 12 mánuði gegn því að hann greiði hæfilega húsaleigu til kaupanda. Gert er ráð fyrir að leiga fari eftir mati sýslumanns en í þeim efnum yrði væntanlega miðað við umsamda leigu nema hún verði ekki talin sannvirði fyrir afnotin.

Þetta er mikilvægt og ætti að tryggja meira búsetuöryggi, ætti að koma í veg fyrir að leigutaki verði borinn út nokkrum dögum eftir að íbúð er seld nauðungarsölu en því miður höfum við heyrt þannig dæmi í fréttum af og til. Í einhverjum þeirra tilvika hafa leigutakar ekki vitað af því að eigandi húsnæðisins hafi verið í vanskilum og því ekki vitað af því að nauðungarsala mundi eiga sér stað.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mína öllu lengri en ég vil enda hana á að þakka hv. þingmönnum í velferðarnefnd fyrir vinnslu málsins og ritara nefndarinnar og þakka framsögumanni málsins fyrir vinnuna við frumvarpið. Það ber að þakka fyrir þá miklu samstöðu sem var um málið í hv. velferðarnefnd. Að lokum vil ég segja: Það er ánægjulegt að nú hefur hv. velferðarnefnd afgreitt þrjú húsnæðisfrumvörp af fjórum. Þau hafa öll verið unnin í mikilli sátt meðal nefndarmanna. Eitt frumvarp, er varðar auknar húsnæðisbætur, er enn í velferðarnefnd og er stefnt að því að klára það mikilvæga mál áður en þing fer í hlé.