145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl.

791. mál
[20:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafna andsvari hv. þm. Ögmundar Jónassonar því að það stendur ekkert í þessu þingskjali um hvað þetta mál er. Hér er verið að leggja til að taka upp 13 ára gamalt mál, blanda þinginu inn í það með afgerandi hætti og láta þingið sjálft skipa hér rannsóknarnefnd um mál sem eru löngu fyrnd. Jafnframt var ríkisendurskoðanda falið hér árið 2006 að gera ítarlega úttekt á málinu og kom þar ekkert einkennilegt fram eftir gögnum að dæma sem eru aðgengileg á vef Ríkisendurskoðunar. Og ekki nóg með það, heldur var fjallað ítarlega um einkavæðingu bankanna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á 71 blaðsíðu og kom ekkert út úr því sem þingmenn hafa orðið varir við eða landsmenn allir. Í millitíðinni hefur verið kallaður saman landsdómur. Hér hafa fallið þungir hæstaréttardómar sem fjalla um markaðsmisnotkunarmál og annað. Þá spyr ég: Hvað er verið að rannsaka? Það stendur skýrt í lögunum um rannsóknarnefndir Alþingis að rannsóknarefnið skuli vera skýrt og afmarkað og að öllum skuli vera ljóst hvað eigi að rannsaka.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann aftur: Hver er það sem kom með þessar nýju upplýsingar til umboðsmanns Alþingis sem, nota bene, var í rannsóknarnefnd Alþingis, einn af þremur, og skrifaði níu binda skýrslu um fall bankanna og rannsókn á fyrri einkavæðingu bankanna?

Í öðru lagi: Hvert er sakarefnið sem rannsaka á til þess að þeir sem rannsóknin beinist að geti þá farið að leita í 13–20 ára gömlum skjölum til að taka til varna? Hvernig er hægt að fara af stað með rannsókn á vegum þingsins og þvæla löggjafanum inn í það án þess að nokkur viti hvað rannsaka á, heldur byggist það á almannarómi einhvers huldumanns úti í bæ?