145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl.

791. mál
[20:21]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í upphafsorðum greinargerðar með þingsályktunartillögunni segir og ég ítreka, með leyfi forseta:

„Tilgangur tillögunnar er að leiða í ljós hver hafi í raun verið þátttaka þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupum á 45,8% eignarhluta ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. og jafnframt að skapa grundvöll fyrir nánari afmörkun á ályktun Alþingis frá 7. nóvember 2012 …“

Þetta mál hefur áður og oft verið til umræðu í þinginu, þar á meðal í fyrirspurn frá mér í febrúar 2006 og þá bárust svör frá viðskiptaráðuneytinu. Talin er ástæða til að efast um að þau hafi verið á rökum reist og hefur þáverandi viðskiptaráðherra lýst því yfir opinberlega í fjölmiðlum að hún telji eðlilegt og fagnar því að málið skuli vera tekið til rannsóknar.

Ég ítreka að málið er skilgreint í sjálfu þingmálinu og í greinargerð sem fylgir því. Að öðru leyti er ekki annað um það að segja en að hv. þingmaður hefur lýst sínum viðhorfum til málsins. Ég hef lýst mínum.