145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl.

791. mál
[20:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að þingið eða þingnefndin hefur ekki undir höndum þær upplýsingar sem hér er vísað til og hefur ekki séð þær. Það er mitt mat að það megi með rannsókn af þessu tagi leiða í ljós hvort hér er raunverulega um að ræða ný gögn. Það verður síðan metið þegar þær upplýsingar liggja fyrir hvort þær breyta með einhverjum hætti þeirri mynd sem við höfum af atburðarásinni.

Ég vildi hins vegar segja að það er alveg rétt sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir kom inn á í ræðu sinni, að við höfum verið í hálfgerðum vandræðum með þá þingsályktunartillögu sem samþykkt var 2012. Þar er eiginlega tvennt sem hefur valdið því að það mál hefur tafist. Annars vegar það að að margra mati var sú tillaga frekar illa afmörkuð og ekki mjög skýr um þá þætti sem leiða átti í ljós umfram það sem áður hafði komið fram. Eins töldu menn þörf á því að setja skýrari lagaramma um hvernig staðið skyldi að undirbúningi og afmörkun bæði rannsóknarefnis og fyrirkomulags rannsóknar. Það hefur nú verið gert.

Ég vil reyndar láta í ljós þá skoðun í þessari umræðu að komi í ljós að þau nýju gögn sem umboðsmaður Alþingis vísaði til og er tilefni þeirrar tillögu sem við ræðum hér varpi einhverju nýju ljósi á atburðarásina tel ég að þar með séum við að mestu leyti, ef ekki öllu, búin að tæma það sem óklárað var eða óljóst varðandi einkavæðinguna hina fyrri.

Svo ítreka ég þá afstöðu mína að ég tel að það sé full ástæða til þess að fara yfir einkavæðinguna (Forseti hringir.) hina síðari og styð hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur í því efni.