145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl.

791. mál
[20:39]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið og ég þakka kærlega fyrir stuðningsyfirlýsinguna, að fá afdráttarlausa stuðningsyfirlýsingu til að fara í rannsókn á einkavæðingu bankanna hinni síðari. Það er mjög mikilvægt fyrir málið.

Þetta voru rándýrar rannsóknarnefndir sem ég vísaði í áðan. Ein kostaði yfir 700 milljónir, það var rannsóknarnefndin um sparisjóðina. Það kom niðurstaða í þá rannsóknarvinnu sem tekin var fyrir á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrir nokkrum dögum eða á nokkrum vikum. Þar var leitt í ljós að tap ríkisins á því að endurreisa sparisjóðina var 32 milljarðar — þrjátíu og tvö þúsund milljónir. Þar liggja stórar upphæðir og væri vert fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að leggja til enn frekari rannsókn á því hvernig það gat gerst og hvernig þetta tap var leitt yfir ríkissjóð. En þá er búin til nokkurs konar smjörklípa og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd býr til nýtt mál úr 13 ára gömlu máli.

Mér finnst heldur ekki sæmandi fyrir þjóðþing Íslendinga að fara af stað með rannsókn í máli sem er fyrnt og byggir á ummælum eins manns og umboðsmaður Alþingis kemur með það fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem ákvað það á einum fundi sínum að hefja rannsókn. Þegar Alþingi hefur rannsókn verður það að vera málatilbúnaður af því tagi að leitt sé fram með óyggjandi hætti að eitthvað rangt hafi átt sér stað. Hér er verið að leggja til rannsókn þar sem enginn veit hvað á að fjalla um, sem er (Forseti hringir.) fyrnt og það er huldumaður sem ber tillöguna upp.