145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti.

668. mál
[21:06]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég tel fulla ástæðu til að fagna því að þetta frumvarp sé svo langt komið sem raun ber vitni. Unnið hefur verið að því í mörg ár. Við erum á réttri leið, við tökum okkur smáhvíld og líkurnar eru á að þetta frumvarp verði endurskoðað og endurmetið innan mjög skamms tíma.

Þegar ég var stelpa man ég eftir því að fullorðna fólkið var alltaf að tala um að renna fleiri stoðum undir atvinnulífið, ég held að það hafi verið orðað þannig. Þetta er einmitt ein mjög mikilvæg stoð sem við höfum ekki fyrr en á síðustu árum séð að skipti máli; hún er það sem kallað er „annað“. Þegar við erum búin að telja ferðaþjónustuna, sjávarútveginn, áliðnaðinn og það í þjóðartekjukökunni þá sést allt í einu, má segja, nokkuð væn sneið af einhverju sem er „annað“. Með þessari lagasetningu erum við svo að greiða fyrir því að fólk fjárfesti í litlum fyrirtækjum sem stunda rannsóknir og þróun og að þau fái starfsfólk, sérfræðinga sem þau þurfa; sérfræðinga sem við höfum kannski ekki nóg af hér og munu auðga atvinnulífið og háskólalífið þar sem búist er við því að þetta komi líka slíkri starfsemi til góða.

Allir sem komu á fund nefndarinnar til að gefa álit sitt eða umsagnir voru mjög jákvæðir gagnvart þessu og nánast fagnandi margir hverjir. ASÍ var með áhyggjur og ég ætla að lesa upp það sem þar segir, með leyfi forseta:

„Það er mat ASÍ að þar sem verið sé að ráðstafa efnislegum gæðum til skilgreinds hóps einstaklinga umfram aðra, sé rétt að efnisleg viðmið liggi fyrir sem nákvæmust í lagafrumvarpi Alþingis fremur en að ráðherra sé veitt rúmt svigrúm til reglugerðarsetningar …“

Ég er að hluta til sammála því viðhorfi að það getur verið slæmt að veita of víðar reglugerðarheimildir til framkvæmdarvaldsins. Ég trúi því hins vegar og ætla að treysta því að framkvæmdarvaldið fari vel með þessa reglusetningu og gæti sín á því að ef einhvers staðar er vafi leiti það aftur til Alþingis en teygi sig ekki of langt í reglugerðarsetningunni í þessum efnum, ekki frekar en í öðrum.

Við í Samfylkingunni styðjum allar þær breytingartillögur sem eru lagðar fram og ég held að þær séu til góða. Þær eru almennt til þess að frumvarpið nái til fleiri en í upphafi, þannig að ég tel það af hinu góða. Við erum þrjú sem skrifum undir fyrirvara við frumvarpið sem tengist því hvaða fyrirtæki geta notið þeirra ákvæða sem í frumvarpinu eru. Sá fyrirvari er einmitt um að þau fyrirtæki séu nákvæmlega skilgreind. Nú vill svo til að Eftirlitsstofnun ESA hefur gefið út reglugerð sem er hægt að taka orðrétt upp og setja inn í svona frumvarp þannig að það er ekkert hjól sem þarf að finna upp í því, það er beinlínis hægt að klippa það út úr texta og líma inn í lagafrumvarpið.

Eins og Katrín Jakobsdóttir sagði á undan mér er þetta munurinn á því að skilgreina þessi fyrirtæki jákvætt eða neikvætt, þ.e. að setja rammann um hvaða fyrirtæki megi njóta þess. Hún las upp fyrirvara okkar og Guðmundar Steingrímssonar og ég sé svo sem ekki ástæðu til að endurtaka þann lestur. En mig langar hins vegar til að lesa upp úr frumvarpstextanum þar sem farið er yfir, í 12. lið 4. gr., starfsemi sem ekki fellur undir þetta ákvæði. Það er starfsemi sem felst í viðskiptum með fasteignir, starfsemi sem felst í útleigu fasteigna, starfsemi eignarhaldsfélaga, starfsemi fjárfestingarfélaga; þetta er frá a-lið í k-lið.

Virðulegi forseti. Hvernig er það fundið út hvaða starfsemi þetta er? Jú, það er þannig að það situr eitthvert fólk í kringum borð og segir: Hvað finnst þér? Nei, við höfum kvikmyndaiðnaðinn ekki með vegna þess að við styrkjum hann annars staðar. Við höfum hér starfsemi tengda fjárfestingu eða rekstri hótela, gistiheimila og veitingastaða. Ég spyr: Af hverju? Getur ekki verið að einhver nýsköpun sé í því? Hvers vegna ekki? Á einhverju litlu hóteli eða gististað úti á landi sem er hugsanlega að þróa eða vinna með íslenskt hráefni, eða hvað veit ég? Nei, þá sitja menn í kringum borð og segja: Nei, það er svo mikill vöxtur í ferðaþjónustu og það er svo mikið um að vera í hótelrekstri og gististaðarekstri, þannig að við tökum það út. Þannig er þetta ákveðið, bara sisvona. Það er náttúrlega allt önnur nálgun en sú að skilgreina nákvæmlega í frumvarpstextanum hvernig þau fyrirtæki þurfi að vera og hvað þau þurfi að gera, hver skilyrðin eru fyrir því að fyrirtæki geti notið þeirra ákvæða sem eru í þessum lagabálki.

Það er engin ástæða til þess, virðulegi forseti, að vera að lengja þessa ræðu mína og lengja þessa umræðu. Aðalatriðið er þetta: Það hefur verið unnið að þessu í mörg ár og það er mjög gleðilegt að þessi lagasetning er nú að verða að veruleika. Ég fagna því að mörkin voru rýmkuð þannig að það er líklegt að þetta komi til fleiri fyrirtækja en frumvarpið gerði ráð fyrir í upphafi. Eitt skilyrði, þ.e. að starfsmenn fyrirtækisins megi ekki vera fleiri en 25, skil ég ekki, virðulegi forseti. Af hverju ekki 24? Af hverju ekki 30? Ég held að einmitt vegna þessa og annarra skilyrða um fyrirtækin muni ekki líða á löngu — og ég vona sannarlega að það verði þannig — þar til þessi ákvæði, sem við vonandi samþykkjum hér á næstu dögum, verða endurskoðuð. Þá vona ég líka að menn leggi í þá vinnu að skilgreina með jákvæðum hætti hvaða skilyrði fyrirtæki þurfi að uppfylla til að njóta þess sem hér er fram sett, en ekki að fólk sitji í kringum borð og segi: Já, við skulum ekki hafa þetta og við skulum ekki hafa hitt. Um það snýst fyrirvari minn, og okkar í Samfylkingunni, við frumvarpið. En enn og aftur: Það er ánægjulegt að málið er komið eins langt og raun ber vitni.