145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

Evrópska efnahagssvæðið.

688. mál
[21:30]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/?1993, með síðari breytingum, um Uppbyggingarsjóð Evrópska efnahagssvæðisins, EES, 2014–2021.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa utanríkisráðuneytisins. Þá barst nefndinni ein umsögn, frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.

Með frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, sem heimilar að fullgiltur verði samningur milli Evrópusambandsins, Íslands, Liechtensteins og Noregs um EES-fjármagnskerfið 2014–2021. Samningurinn felur í sér að EES-ríkin innan EFTA greiði framlög til Uppbyggingarsjóðs EES næstu sjö árin en sjóðurinn hefur þau markmið að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi á Evrópska efnahagssvæðinu og efla tengsl við styrkþegaríkin. Styrkþegaríkin eru 15 talsins og eru Búlgaría, Eistland, Grikkland, Króatía, Kýpur, Lettland, Litháen, Malta, Pólland, Portúgal, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland.

Heildarfjárframlag Íslands samkvæmt samningnum er 7 milljarðar kr. og taka árlegar greiðslur mið af fjárþörf verkefna í styrkþegaríkjunum. Um er að ræða rúmlega 11% hækkun á framlögum frá fyrri samningi sem er aðeins undir verðlagsbreytingum síðustu fimm ára á Íslandi. Á fundi nefndarinnar kom fram að Ísland greiðir um 3% af heildarframlagi í Uppbyggingarsjóðinn en Noregur ber mestan kostnað, enda er skiptingin gerð á grundvelli vergrar landsframleiðslu EES/EFTA-ríkjanna.

Samningar um Uppbyggingarsjóðinn hafa til þessa verið til fimm ára í senn en nú er samið til sjö ára. Samhliða samningaviðræðum um Uppbyggingarsjóðinn var samið um tollfrjálsan innflutningskvóta fyrir sjávarafurðir. Að þessu sinni var samið um umtalsverða aukningu á tollfrjálsum innflutningi íslenskra sjávarafurða til Evrópusambandsins, ESB, eða í alls 1.000 tonn af humri, sem var 520 tonn, 2.000 tonn af ferskum eða kældum karfaflökum, sem var 750 tonn, 950 tonn af heilfrystri síld, en það er óbreytt, og síðan er samið um 2.500 tonna kvóta af niðursoðinni lifur, en það er nýr kvóti.

Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um mikilvægi þess að ná fullu tollfrelsi íslenskra sjávarafurða sem fluttar eru til Evrópusambandsins, ESB. Nefndin bendir á að mikil aukning varð á tollkvótum miðað við fyrri samninga. Þá bendir nefndin einnig á að í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að umfang og fjöldi verkefna með íslenskum samstarfsaðilum hefur verið töluvert yfir því hlutfalli sem framlagi Íslands nemur í Uppbyggingarsjóðinn. Nefndin áréttar að engin ástæða sé til að ætla annað en að íslenskar stofnanir haldi áfram að reka og taka þátt í verkefnum sem sótt geta í Uppbyggingarsjóðinn.

Nefndin leggur til að málið verði samþykkt.

Hv. þingmenn Karl Garðarsson, Frosti Sigurjónsson og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Elín Hirst var einnig fjarverandi en ritar undir álitið í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Þetta var samþykkt á Alþingi 26. maí 2016.

Undir nefndarálitið rita eftirtaldir hv. þingmenn: Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, Vilhjálmur Bjarnason, framsögumaður nefndarálits, Elín Hirst, Óttarr Proppé, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.