145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

ný skógræktarstofnun.

672. mál
[21:36]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna nýrrar skógræktarstofnunar, um sameiningu stofnana.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Svönu Helgadóttur og Björn Helga Barkarson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Þröst Eysteinsson og Sigríði Júlíu Brynleifsdóttur frá Skógrækt ríkisins og Hrönn Guðmundsdóttur frá Landssamtökum skógareigenda. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bændasamtökum Íslands, Félagi skógarbænda á Austurlandi, Félagi skógarbænda á Suðurlandi, Landgræðslu ríkisins, Landssamtökum skógareigenda, Landvernd, Náttúrufræðistofnun Íslands, Þorsteini Péturssyni, Guðmundi Aðalsteinssyni og sameiginleg umsögn frá Skógrækt ríkisins, Héraðs- og Austurlandsskógum, Suðurlandsskógum, Skjólskógum og Vesturlandsskógum.

Með frumvarpinu er lagt til að skógræktarstarf ríkisins, þ.e. Skógrækt ríkisins og landshlutaverkefni í skógrækt, sameinist undir eina stofnun, Skógræktina. Frumvarpið er byggt á tillögum starfshóps sem skilaði umhverfis- og auðlindaráðherra greinargerð í september sl. þar sem sameining stofnananna var lögð til. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að með sameiningunni verði stjórnsýsla málaflokksins einfaldari og sterkari, framkvæmd stefnumörkunar í skógrækt verði einfaldari og margþætt samlegðaráhrif muni skapast varðandi ráðgjöf, fræðslu- og kynningarmál og þróun og eftirlit. Lagðar eru til lágmarksbreytingar á lögunum til að hægt sé að hrinda sameiningunni í framkvæmd en í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er nú unnið að heildarendurskoðun laga um skógrækt. Í þessu frumvarpi er því ekki að finna aðrar breytingar á efnisákvæðum laganna. Nefndin hvetur til þess að vinnu við endurskoðun skógræktarlaga og landgræðslulaga verði hraðað og bendir á að rétt sé að fylgja þeirri vistkerfisnálgun sem ný náttúruverndarlög, nr. 60/2013, sem tóku gildi 15. nóvember sl., byggjast á, enda náin tengsl milli þeirra og fyrrnefndra lagabálka.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að helstu hagsmunaaðilar eru fylgjandi frumvarpinu og að gott samráð hefði verið haft við undirbúning þess. Í ljósi umsagna telur nefndin rétt að fjalla um nokkur atriði. Í 3. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 1. gr. laga um landshlutaverkefni í skógrækt, nr. 95/2006. Síðari málsliður greinarinnar hefur þar fallið brott án þess að það sé tilgangur frumvarpsins að fella markmið um ræktun skóga á ákveðnum hluta landsins brott. Nefndin leggur því til breytingu til að markmiðin komi áfram fram í lögunum. Í 6. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 5. gr. laga um landshlutaverkefni í skógrækt og kveðið á um samráð við Landssamtök skógareigenda við ákvörðun viðmiða fyrir endurgreiðslu samþykkts kostnaðar. Nefndin leggur áherslu á að um virkt samráð verði að ræða og reynsla af framkvæmd ákvæðisins verði metin við heildarendurskoðun laga um skógrækt. Í 11. gr. frumvarpsins er fjallað um réttarstöðu starfsmanna Skógræktar ríkisins og starfsmanna landshlutaverkefna í skógrækt við sameininguna. Skógrækt ríkisins er ríkisstofnun og um réttindi starfsmanna stofnunarinnar við sameiningu gilda lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Einstaka starfsmenn landshlutaverkefnanna kunna þó í einhverjum tilvikum að hafa annað ráðningarform og falla því undir lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 72/2002. Vísað er til laganna til að tryggja að starfsmenn tapi ekki réttindum sínum með einhverjum hætti við sameininguna.

Á síðustu árum hefur Skógrækt ríkisins í auknum mæli sinnt úrvinnslu trjáafurða auk þess að hafa umsjón með landi Skógræktarinnar auk annarra verkefna en ekki eiginlegri ræktun skóga en umsvif Skógræktarinnar að þessu leyti munu m.a. markast af því hvernig úrvinnsla skógarbænda sjálfra á afurðum sínum mun þróast.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Við efnismálsgrein 3. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í hverjum landshluta skal stefnt að ræktun skóga á að minnsta kosti 5% af flatarmáli láglendis neðan við 400 m yfir sjávarmáli.

Hv. þingmenn Haraldur Einarsson, Birgir Ármannsson og Ásta Guðrún Helgadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Höskuldur Þórhallsson, formaður og framsögumaður, Katrín Júlíusdóttir, Elín Hirst, Svandís Svavarsdóttir, Róbert Marshall og Vilhjálmur Árnason.

Eins og ég kom inn á í yfirferð minni yfir nefndarálit um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna nýrrar skógræktarstofnunar telur nefndin brýnt að vinnu við endurskoðun skógræktarlaga og landgræðslulaga verði hraðað og bendir á að rétt sé að fylgja þeirri vistkerfisnálgun sem ný náttúruverndarlög, nr. 60/2013, sem tóku gildi 15. nóvember sl., byggjast á, enda náin tengsl milli þeirra og fyrrnefndra lagabálka. Ég held að það sé líka rétt í þessu samhengi að ræða þá góðu og miklu sátt sem náðist um náttúruvernd í umhverfis- og samgöngunefnd sl. haust. Ný lög um náttúruvernd höfðu lengi verið bitbein, ekki bara einstakra stjórnmálaflokka heldur einnig ýmissa aðila í samfélaginu. Eftir að hafa hlustað alla þá umsagnaraðila sem óskuðu eftir að koma fyrir nefndina, í raun alla þá sem höfðu eitthvað um málið að segja, tókst eftir langt streð að ná góðri sátt um náttúruvernd sem ég held að verði landi og þjóð til framfara á næstu missirum og næstu árum.

Við tökum eftir því núna þegar ferðamannaiðnaðurinn vex og dafnar og stækkar gríðarlega að náttúran skiptir gríðarlega miklu máli. Við höfum enn þá verk að vinna. Við þurfum að gæta að náttúrunni og við þurfum að ganga vel um hana og nýta hana á skynsamlegan hátt. Við náðum ekki að fara yfir öll atriði sem fjalla um för manna um landið. Það er enn þá óljóst hvert menn vilja stefna. Sú umræða hefur reyndar breyst gríðarlega á síðustu árum með auknum ferðamannastraumi þar sem almenningur gerir meiri kröfu um að fá að ferðast um landið, ekki bara þau svæði sem eru í ríkiseigu heldur einnig í einkaeigu. En um leið verður átroðningur mikill á þessum svæðum og er rétt að skýra reglur í þá átt.

Ég held að við séum að stíga hér mjög góð skref. Ég þakka hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir vinnu hennar. Þetta er mál sem hún lagði fram og ég held að það sé afar gott að við höfum stigið það skref að stofna nýja skógræktarstofnun. Ég held að það verði þessum málaflokki til framdráttar á komandi árum og vona að það leiðarljós sem við leggjum fram í þessu nefndaráliti geri það að verkum að ný skógræktarstofnun geti starfað og verið málaflokknum til sóma.

Ég legg til að málið verði samþykkt á Alþingi.