145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[22:08]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Var það ekki hæstv. menntamálaráðherra sem stóð í þessum ræðustól fyrir réttu ári og lofaði að það mundi aldrei gerast aftur að hann mundi biðja hv. allsherjar- og menntamálanefnd að flytja frumvarp af þessu tagi? Var það ekki hæstv. menntamálaráðherra sem sór við sína eigin pólitísku framtíð og heiður að hann mundi ljúka þessu máli þannig að aldrei aftur þyrfti að koma til þess að vegna tímanauðar þyrfti menntamálanefnd að flytja svona mál? Ég man ekki betur en að formaður nefndarinnar hafi sjálf haft mjög sterk orð um að það væri mjög óæskilegt að vinna málið með þessum hætti. Er það þá bara þannig að hæstv. menntamálaráðherra getur tekið þingið í gíslingu og sagt: Ef þið flytjið ekki þetta mál þá er samkomulag við sveitarfélögin í uppnámi? Það er það sem virðist liggja hér fyrir. Ég get ekki annað sagt, frú forseti, en að ég er gáttaður á því að hér skuli þriðja árið í röð koma mál af þessu tagi. Ég er gáttaður á því að Alþingi láti bjóða sér svona framkomu. Ég lýsi sömuleiðis eftir hæstv. menntamálaráðherra, hvar er hann þegar við erum að ræða mál af þessu tagi? Hann lofaði því á síðasta þingi, við nákvæmlega sömu aðstæður, að hann mundi, áður en kæmi að því að við kláruðum næsta ár, vera búinn að leggja fram frumvarp sem hefði að geyma framtíðarskipan þessara mála. Hæstv. ráðherra sagði þá að frumvarpið væri nánast tilbúið, það mundi koma fram á næstu mánuðum. Ég spyr hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur: Var þetta allt saman tóm vitleysa hjá ráðherranum? Hvar er hann eiginlega? Má ég rifja það upp að það var þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sem í fyrra tosaði nánast með töngum ráðherrann hingað til þings til þess að skýra þetta mál. Ég fer fram á það að Sjálfstæðisflokkurinn nái aftur í þennan sama ráðherra og láti hann aftur skýra sitt mál.