145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[22:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki við formann allsherjar- og menntamálanefndar að sakast, hún er sett í kolómögulega stöðu. Það má segja að hæstv. ráðherra taki bæði hana og nefndina og þingið í gíslingu með því að haga sér með þessum hætti; það er bara ekki hægt að bjóða þinginu upp á svona. Það er upplýst hér að samkomulagið var klárað 13. apríl og undirritað. Það er einn og hálfur mánuður síðan. Hvað hefur hæstv. ráðherra verið að gera? Varla hefur hann verið í Færeyjum allan þennan tíma. Mér finnst þetta vera til fullkominnar vansæmdar fyrir framkvæmdarvaldið og segi: Það er algjörlega út í hött að við ljúkum þessu máli án þess að hæstv. ráðherra komi og skýri hvað hann er að gera í þessu ráðuneyti sínu annað en að skipuleggja heimsóknir til Færeyja þegar hann á að vera hér og standa fyrir máli sínu.

Ég rifja upp hans eigin orð frá því í fyrra. Það sem er breytt frá því í fyrra er að hæstv. ráðherra lofaði okkur þá að hann mundi ljúka við að setja lög um þennan málaflokk og sagði okkur jafnframt að þau væru meira og minna tilbúin í frumvarpsformi. Það er algjörlega fráleitt að þingið ljúki þessu máli með ráðherrann hangandi í Færeyjum. Ég fer fram á það, vegna þess að við höfum rætt þetta mál oft áður og ráðherrann hefur haft uppi svardaga hér, að umræðu um þetta mál verði frestað þangað til hæstv. ráðherra hunskast heim og stendur fyrir máli sínu.