145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[22:21]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja á því að segja að ég tel að það sé góð hugmynd og mikilvægt að fara hér fram á sérstaka umræðu við menntamálaráðherra um framtíð varðandi málefni tónlistarskóla. Ég held að það væri mjög vel til fundið að reyna að koma því við á næstu dögum. Ég efast ekki um að ráðherrann er meira en viljugur til að taka slíka umræðu hér í þinginu, til þess einfaldlega að fara betur yfir þetta samkomulag.

Varðandi það hverjir voru kallaðir til við gerð frumvarpsins, ég treysti mér ekki til að úttala mig um það að öðru leyti en því sem fram kemur í textanum í greinargerðinni. Það kemur jafnframt fram í greinargerðinni að í samkomulaginu komi fram að ráðherrann vinni áfram að undirbúningi nýs frumvarps um tónlistarskóla. Þannig að það kemur fram. Samkomulagið liggur frammi á netinu, á heimasíðu sambandsins og ráðuneytisins, þannig að menn geta kynnt sér það og efni þess.

Varðandi það hvenær allsherjarnefnd fékk beiðnina um að flytja þetta mál, ég treysti mér ekki alveg til að muna það; hvort það var fyrir viku eða tíu dögum, en það er um það bil tíminn. Það kom fram í fjölmiðlum þegar samkomulagið var undirritað þannig að við vissum svo sem að það hlytu að fylgja því einhverjar tilfæringar hér í þinginu til að skjóta lagastoð undir þau atriði sem komu fram í samkomulaginu.

Ég ítreka að ég trúi því að ráðherrann sé meira en viljugur til að koma hér til umræðu við þingmenn.