145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[22:26]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim þingmönnum sem talað hafa undir þessum dagskrárlið um fundarstjórn forseta á undan mér, að það er alveg ómögulegt að halda áfram með þessa umræðu í kvöld án þess að hæstv. menntamálaráðherra sé viðstaddur. Eins og komið hefur fram tökum við hér til umræðu þá bráðabirgðareddingu sem nú á að vera til tveggja ára í staðinn fyrir eins árs eins og hingað til. Eins og fram kom hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni lofaði ráðherrann á síðasta ári að það yrði í síðasta sinn, enda væri hann með í huga að setja á stofn tónlistarháskóla eða eitthvað svoleiðis sem við vitum enn þá ekkert um, virðulegi forseti. Það er náttúrlega ekki hægt að bjóða okkur upp á þetta jafnvel þó að komið sé að þinghléi.