145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[22:27]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er svo, og það kom fram hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, að hér stendur að unnið sé áfram að undirbúningi nýs frumvarps til nýrra laga um tónlistarskóla. Þann 13. nóvember 2014 kom hæstv. ráðherra hér upp í sérstakri umræðu um framtíð tónlistarmenntunar og sagði: Við erum á lokametrunum og ég vona svo innilega að ég fái fram frumvarp á vorþinginu 2015. Síðan hefur ekkert gerst eða heyrst af þeim málum nema að reglulega fara menn bónveg til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og biðja hana um að framlengja ákveðin lagaákvæði til þess að hægt sé að standa við samkomulag sem, nota bene, ég vil taka fram að ég hef staðið með hæstv. ráðherra í að sé mikilvægt og skipti máli. Þar hafa verið uppi túlkunaratriði þar sem ég hef verið sammála hæstv. ráðherra. Hann hefur átt hér stuðning að sækja í því máli, en eigi að síður sér hæstv. ráðherra ekki tilgang eða ástæðu til að upplýsa þingið um fyrirætlanir sínar. Auðvitað er þolinmæði okkar þingmanna algjörlega á þrotum í þessu máli sem kemur (Forseti hringir.) hér inn sex vikum eftir að samkomulagið er undirritað. Við lesum um það í blöðum og fjölmiðlum að fyrirhugaðar séu ýmsar breytingar (Forseti hringir.) og frumvarpið sem okkur var lofað fyrir meira en ári er enn og aftur margboðað. Og það er ekki (Forseti hringir.) einu sinni boðið upp á skýrslugerð um málið, hvað þá að hæstv. ráðherra flytji málið sjálfur, sem hann (Forseti hringir.) hefði að sjálfsögðu átt að gera og hafði nógan tíma til ef það hefði verið gert strax í apríl á þessu ári.