145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[22:29]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er alveg með ólíkindum að fylgjast með og hlusta á umræðu um það þingmál sem hér var verið að taka til umræðu. Ég get nú eiginlega ekki annað en fundið pínulítið til með hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur því að hún er auðvitað ekki sökudólgurinn í þessu máli heldur hæstv. menntamálaráðherra. Mig langar að taka undir með þeim sem sagt hafa undir þessum dagskrárlið að gera verði hlé á þingfundi því að það er ekki hægt að halda áfram hérna meðan menntamálaráðherra er ekki í húsi. Það hefur vissulega komið fram að hæstv. ráðherra sé á leiðinni, en mér finnst eiginlega að eins og þetta mál er vaxið sé ekki boðlegt að þingmenn haldi ræður í þessu máli fyrr en ráðherrann er kominn. Þess vegna finnst mér að það eigi bara að gera pásu þar til ráðherrann kemur, þá getum við haldið áfram.