145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[22:30]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mig langar til þess að inna hæstv. forseta eftir því hvort ekki sé áformað að fresta þessari umræðu og taka fyrir annað mál á dagskrá þangað til hæstv. ráðherra kemur. Ég skil það svo að hann sé ekki lengur í Færeyjum, hann sé kominn hingað til Íslands og sé þess vegna reiðubúinn til að koma og ræða málið. Mér finnst ekki hægt að fara lengra með þetta mál nema við heyrum skýringar hans á því og af hverju það er svona statt.

Þetta minnir mig á góða skáldsögu eftir minn uppáhaldshöfund, Gabriel Garcia Marquez, Frásögn um margboðað morð. Hæstv. ráðherra hefur margsinnis lýst því að hann ætli sér að kynna þinginu frumvarp sitt og hugmyndir um skipan þessara mála. Það bólar ekkert á því. Það var rifjað hér upp af hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur að í nóvember 2014 hefði hæstv. ráðherra talað um að frumvarpið væri á síðustu metrunum. Það er orðið ansi teygjanlegt hugtak hvað síðustu metrarnir eru. Hverjir eru þeir? Við þurfum m.a. að fá skýringu hæstv. ráðherra á því hvenær þessum síðustu metrum er lokið. (Forseti hringir.) Er það hlaup sem tekur meira en eitt kjörtímabil?