145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[23:05]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þannig er reyndar að frá því að samkomulagið var unnið hefur ýmislegt breyst í stjórnmálunum, það má til sanns vegar færa, og ýmsar forsendur um tímasetningar og annað slíkt orðnar aðrar en ætlað var, en það er kannski ekki það sem skiptir máli og heldur ekki hvort einstaka hæstv. ráðherrar séu léttir í lundu eða ekki. Þetta mál skiptir mig reyndar miklu og mér finnst alveg skelfilegt hver þróunin hefur verið. Ég get ekki að því gert, virðulegi forseti, að það er mjög þungt í mér í þessu máli vegna þess að ég tek það mjög alvarlega og mér finnst mjög vont hvernig hefur verið farið með tónlistarnámið, sérstaklega í Reykjavík.

Hvernig svo sem staðið var að undirbúningi samkomulagsins 2011, sem ég þekki auðvitað ekki en hv. þingmaður, fyrrverandi hæstv. ráðherra, segir að hafi verið vel undirbúið, þá fór það samt þannig að það hafði þessar afleiðingar. Ég hef aldrei fengið neinar viðhlítandi skýringar frá þeim sem eru í forsvari fyrir Reykjavíkurborg hvernig í ósköpunum stóð á því að málflutningurinn í því máli sem byggði fyrst á því að ekki væri hægt að setja peninga í þetta vegna deilu við ríkið breyttist síðan algjörlega í dómsalnum og varð allt annar þar sem stóð ekki steinn yfir steini í því sem áður hafði verið sagt. Mér finnst alveg furðulegt hvernig hægt var að komast upp með þetta og valda þessum mikla skaða. Og auðvitað, virðulegi forseti, er mér nokkuð þungt í sinni vegna þessa. Ég held að hv. þingmönnum ætti að vera það líka, þetta er þannig mál.

Samkomulagið sem við höfum gert við sveitarfélögin er opinbert gagn og allir geta kynnt sér það. En vissulega frá því að það var undirritað fer af stað vinna til að skoða hvaða breytingar þarf að gera á lögum á grundvelli þess. Það er 13. apríl sem við undirritum. (Forseti hringir.) Síðan fer fram þessi vinna. Ég skal viðurkenna, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, að ég taldi að málið væri þannig vaxið að raunverulega væri verið að skjóta lagastoðum undir það og ekki væri um neina efnislega (Forseti hringir.) stefnubreytingu að ræða, og því væri ekki úr vegi að fara með málið í gegnum nefndina. (Forseti hringir.) Ég mun koma að því á eftir í seinna svari mínu hvernig að því snýr.