145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[23:10]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður erum sammála um að það hefur orðið stórskaði í tónlistarmenntun í landinu vegna þess hvernig Reykjavíkurborg túlkaði það samkomulag sem gert var árið 2011. Það var mjög alvarlegt að þróunin varð sú sem raun bar vitni. En þó var ágætt að upp kom dómsmál sem neyddi Reykjavíkurborg til þess að segja satt í málinu, til að hætta að bera fyrir sig deilu við ríkisvaldið og horfast í augu við það að lög stóðu til þess og standa enn til þess að sveitarfélögin fari með þessi mál, beri ábyrgð á þeim og eigi þar af leiðandi að sinna þeim með sóma.

Samkomulagið sem gert var 2011 var til þess að bæta við fjármunum. Það er ófyrirgefanlegt að svona skuli hafa verið farið að eins og gert var. En það má segja að það sé kannski fyrir aftan okkur. Ég hef ekki enn þá heyrt neinar skýringar á því hvernig stóð á því að þetta var gert svona.

Virðulegi forseti. Ég get þá tekið af allan vafa um það að hvorki á morgun né hinn mun koma fram nýtt frumvarp til laga um tónlistarskóla. Þá þarf ekki að hafa áhyggjur af því. Það liggur fyrir. Við munum ekki ná því. Það mun ekki hafa áhrif á túlkunina á þessu samkomulagi. Ég er reyndar þeirrar skoðunar hvað varðar samkomulagið 2011 að aldrei hafi heldur með nokkrum hætti verið hægt að nýta sér ákvæði í því til þess að reyna að snúa út úr því eins og gert var.

Virðulegi forseti. Hér er frumvarpið sem talað var um að þyrfti að vinna og auðvitað tók einhvern tíma að ganga frá því til að skjóta lagastoð undir þetta.

Virðulegi forseti. Hvað er þá á leiðinni? Nú er búið að auglýsa eftir þeim sem vilja taka að sér að reka þennan nýja tónlistarskóla. Sá tónlistarskóli mun geta tekið til sín 200 nemendur. Það þýðir að samkomulagið sem gert hefur verið og undirritað var 13. apríl tryggir að framlagið hækkar á hvern einasta nemanda (Forseti hringir.) til annarra tónlistarskóla í landinu. Það þýðir að sveitarfélögin verði í betri færum en áður til að sinna þessu verkefni og að við fáum öflugan tónlistarskóla í landið (Forseti hringir.) á framhaldsstiginu, nám sem leiðir til stúdentsprófs. Ég fullyrði að hér (Forseti hringir.) er að myndast mjög frambærileg lausn á þeim vanda sem varð til.

(Forseti (BjÓ): Forseti vill biðja hæstv. ráðherra um að virða tímamörk.)