145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[23:34]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hennar ágætu ræðu og raunar þegar ég bað um andsvarið voru ekki komin fram þau svör sem komu síðar fram í ræðu hv. þingmanns, þannig að ég þarf kannski ekki mikið að inna hana eftir því sem mér lék hugur á að vita. En mér sýnist að með þessu máli hérna sé verið að bjarga vandræðum á síðustu stundu, verið að gera ríkinu kleift að greiða sveitarfélögunum svo þau geti staðið undir tónlistarskólarekstri í samræmi við samkomulag sem löngu var gert. Síðan er boðað frumvarp sem löngu var boðað en við höfum ekki séð. Og það sem nú er verið að ræða gildir bara til tveggja ára. Þetta er í raun bara einhver redding til tveggja ára. Hér er ekki verið að leysa eða marka neina framtíðarstefnumótun í málefnum tónlistarskólanna og hér er engin varanleg lausn á borðinu þó að það sé fullyrt í greinargerð með frumvarpinu.

Það var nú bara þetta sjónarmið sem ég ætlaði að inna hv. þingmann eftir því að hún þekkir vel til málsins eftir að hafa verið menntamálaráðherra sjálf.

Þar sem hér hefur líka verið mjög hart deilt á Reykjavíkurborg af hálfu hæstv. menntamálaráðherra væri nú líka fróðlegt að vita hver sé sýn hv. þingmanns og fyrrverandi menntamálaráðherra á stöðu Reykjavíkurborgar. Hún hefur engan fulltrúa hér til svara fyrir sig. En ég trúi ekki öðru en það séu einhverjar einfaldanir sem hér hafa komið fram í því máli. Mér þætti vænt um að heyra sjónarmið þingmannsins til þess.