145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

um fundarstjórn.

[15:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta er í annað sinn sem ég kveð mér hljóðs undir þessum lið til að vekja athygli á sama máli sem er skýrslubeiðni sem var lögð fram þann 15. október í haust og var samþykkt á Alþingi 20. október, skýrslubeiðni þar sem ég er fyrsti flutningsmaður og ásamt átta öðrum hv. þingmönnum, til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um niðurfærslu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þarna eru fimm spurningar sem lúta að ýmsum útfærsluatriðum varðandi niðurfærslu verðtryggðra fasteignaveðlána. Ég vakti máls á þessu um daginn, fyrir u.þ.b. tveim vikum, og þar kom fram að forseti þings mundi koma þeim skilaboðum til fjármála- og efnahagsráðuneytis að við þessari beiðni yrði brugðist. Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst það algjörlega óásættanlegt að nú er kominn júní og beiðnin er lögð fram fyrir sjö og hálfum mánuði, enn er ekki komið svar. Það finnst mér algjörlega óviðunandi og ég mælist til þess að Alþingi krefji fjármála- og efnahagsráðuneytið svara við þessari skýrslubeiðni þannig að við hv. þingmenn sem lögðum hana fram 15. október fáum skýr svör við þessum spurningum.