145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Tekin hefur verið ákvörðun með lögum um að lögreglunám fari á háskólastig og sú staða er uppi í dag að ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvar námið skuli kennt. Háskólinn á Akureyri hefur lýst mjög eindregnum áhuga og vilja til að fóstra þetta nám. Háskólinn á Akureyri er til þess mjög fær. Nú þegar hefur verið sett fram mjög metnaðarfull námsáætlun um diplómanám upp á 120 ECTS og 60 viðbótareiningar til meistaranáms, en síðan er líka í farvatninu hjá skólanum, ef Háskólinn á Akureyri yrði fyrir valinu, að bjóða upp á meistaranám í lögreglufræðum. Það sem skiptir miklu máli er að Háskólinn á Akureyri hefur boðið upp á nám í ótal greinum, m.a. í kennslufræðum og hjúkrunarfræðum, í fjarnámi. Skólinn er líka af þeirri stærðargráðu að hann getur veitt persónulega leiðsögn og persónulega aðstoð og menn þurfa ekki, þeir sem hyggjast stunda nám í lögreglufræðum ef það yrði á Akureyri, að taka sig upp með fjölskyldu af því að hægt væri að stunda námið í fjarnámi sem skiptir gríðarlega miklu máli.

Í innanríkisráðuneytinu liggur bréf frá háskólayfirvöldum á Akureyri þar sem farið er ítarlega yfir hugmyndir þeirra um lögreglunámið og ég beini þeim tilmælum til hæstv. menntamálaráðherra að hann skoði það með mjög jákvæðum huga.


Tengd mál