145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

staða og rekstrarvandi framhaldsskólanna.

[15:51]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu og hæstv. ráðherra fyrir hans svör. Það er rétt, sem hefur komið fram í nokkrum ræðum hér, að rekstrarvandi framhaldsskólanna hefur varað í langan tíma. Það er jafnframt rétt að fjármagn á nemanda hefur verið hækkað undanfarið en samt sem áður heyrum við fréttir af rekstrarvanda framhaldsskólanna. Mig langar í þessari stuttu ræðu að tala út frá einum punkti í þessum fréttaflutningi en ég hef sérstakar áhyggjur af einum hópi sem eru börn eða nemendur sem eiga við námsörðugleika að stríða.

Það er afar mikilvægt að sá jákvæði árangur sem stefnt er að skili sér svo að skólarnir hafi svigrúm til að styðja við bakið á nemendum sem þurfa að fara á lengri tíma í gegnum framhaldsskólakerfið en gert er ráð fyrir. Þeir verða að hafa svigrúm til þess að geta verið með stoðþjónustu fyrir þennan nemendahóp sem eykur líkur á að þessir nemendur fái þjónustu við hæfi og geti sinnt námi sínu eins og þeir vilja.

Mig langaði að koma með þennan vinkil inn í umræðuna og spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvernig þessir þættir muni líta út, hvernig bregðast eigi við þeim hópi nemenda sem er í þessum sporum og hvort áætlanir séu uppi um að styrkja stoðþjónustu framhaldsskóla með það í huga að styðja við bakið á nemendum í þessum sporum.