145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

staða og rekstrarvandi framhaldsskólanna.

[15:54]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á að þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu, sérstaklega þá málshefjanda, hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur. Það er nú ekki langt síðan ég útskrifaðist úr framhaldsskóla. Upp á dag held ég að það séu ein sex ár. Ég var svo óheppin að lenda í því að vera átján ára 2008 þegar hrunið reið yfir. Þrátt fyrir það, í því bullandi góðæri sem var þar áður, voru samt vandamál, þá var samt ekki til nægur peningur. Ég var í MR sem þykir nú frekar ódýr skóli svona almennt séð þegar kemur að samanburði við aðra framhaldsskóla. Og þetta hefur bara ekkert skánað.

Núna erum við komin aftur í eitthvert bullandi góðæri, lengsta hagvaxtartímabil sem við höfum séð lengi og ég veit ekki hvað. Ég skil ekki af hverju við getum bara ekki lagað þetta. Það er hægt að koma með einhverjar tölur og segja að eftir 2020 verðum við komin með svona mikið á hvern nemanda og hvern haus. Vandamálið er núna. Vandamálið var í gær. Vandamálið mun halda áfram eftir 20 ár ef við gerum ekki eitthvað núna.

Ég hvet hæstv. menntamálaráðherra til að hafa frumkvæði að því að koma til móts við þessa framhaldsskóla með skýrari hætti. Það þarf greinilega meira. Við sjáum uppsafnaðan vanda hjá framhaldsskólunum ár eftir ár; undanfarin 26 ár eftir því sem ég veit best. Það er kannski kominn tími til að við höfum almennilega menntastefnu, að við byrjum að fjárfesta almennilega í því að mennta fólk á Íslandi. Eins og við erum að gera þetta núna er þetta eitthvert hálfkák; við erum farin að stytta framhaldsskólana og takmarka hverjir fá aðgang að framhaldsskólunum. Þetta gengur ekki til lengdar. Við munum enda sem láglaunaland með lágt menntastig ef þetta heldur áfram. Ég hvet hæstv. menntamálaráðherra til að bregðast við þessu strax.