145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

staða og rekstrarvandi framhaldsskólanna.

[15:56]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa þörfu umræðu en mér finnst eins og eitthvert undarlegt skilningsleysi ríki á stjórnarheimilinu um mikilvægi menntunar og hlutverk reksturs framhaldsskólanna í því sambandi. Það hefur verið farið yfir það mörgum sinnum, aftur á bak og áfram, hér í þingsal og í þingnefndum, hvernig staða framhaldsskólanna var við efnahagshrunið 2008. Árin þar á undan hafði mikil breyting átt sér stað í rekstri þeirra og mikil hagræðing. Þess vegna var lítil fita til að skera af í rekstrinum þegar kreppan skall á. Margir skólar geta til að mynda ekki í núverandi stöðu endurnýjað tölvubúnað sinn eða húsgögn og verkmenntaskólar geta ekki endurnýjað tæknibúnað sinn. Mikil harka er komin í spilið af hálfu ráðuneytanna. Framhaldsskólar sem eru í skuld við ríkissjóð fá ekki rekstrarfé til að brúa bilið. Það hefur í för með sér skerta þjónustu við nemendur, nema skólarnir versli út á krít með tilheyrandi vaxtakostnaði.

Þingnefndir hafa kallað fjármálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið fyrir, saman og hvort í sínu lagi, þar sem lofað er bættri stöðu en allt kemur fyrir ekki. Framhaldsskólarnir hafa kallað eftir lausnum og óskað eftir fundum en fá engin svör. Um 90% af fjármagni framhaldsskólanna fara í launagreiðslur. Deilur hafa staðið um útreikning kjarasamninga og telja skólarnir hallað á sig í þeim reikningi, enda um reikningsdæmi að ræða sem gengur ekki upp nema með neikvæðri stöðu fyrir skólana.

Það verður að leysa vanda framhaldsskólanna sem blasir við og það þarf að leysa hann strax því annað er algerlega óásættanlegt.