145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

staða og rekstrarvandi framhaldsskólanna.

[16:02]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa þörfu umræðu og málshefjanda, hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur, fyrir að taka þetta mikilvæga mál hér á dagskrá og ég þakka hæstv. menntamálaráðherra Illuga Gunnarssyni fyrir að útskýra fyrir þingheimi stöðu framhaldsskólanna frá hlið framkvæmdarvaldsins og orsakir og ástæður þessa rekstrarvanda. Hæstv. ráðherra fór með okkur aftur til ársins 2012 og hv. þm. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir vitnaði í grein skólameistara Kvennaskólans sem ég var jafnframt búinn að lesa. Ég tek mark á orðum míns gamla íslenskukennara úr Verslunarskóla Íslands, það er nefnilega munur á rekstrarvanda og greiðsluvanda eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra. Ég held að við verðum að nálgast vandann þar og jafnframt horfast í augu við tímabærar kjarabætur í kjarasamningum kennara sem hafa vissulega áhrif.

Framhaldsskólarnir eru hornsteinn í menntakerfi okkar. Við erum öll sammála um það og við erum öll sammála um að vernda og verja hið faglega starf. Af því að hæstv. ráðherra fór með okkur aftur til ársins 2012 vil ég segja að ég man alveg hvernig skólastjórnendur og kennarar tókust á við þann niðurskurð sem framhaldsskólarnir þurftu að mæta. Það var sameinað í hópum og kennarar kenndu stærri hópum en er æskilegt. Þetta þurfum við að leiðrétta og það er unnið í því. Þegar greiðsluvandi er til staðar af því að skuldahliðin þenst út þarf að vinna hann niður. (Forseti hringir.) Ég vil meina að stefna hæstv. ráðherra á þessu kjörtímabili auki forsendurnar til þess að takast á við þann vanda sem við höfum ekkert val um að gera.