145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

staða og rekstrarvandi framhaldsskólanna.

[16:04]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli sem við höfum rætt á þingi og hefur verið rætt úti í þjóðfélaginu. Staða framhaldsskólanna er grafalvarleg. Í fjármálaáætluninni skil ég það svo að verið sé að auka fjárframlög til framhaldsskólanna að einhverju leyti en það er líka gengið út frá að stytting námsins muni skila meira fjármagni inn í framhaldsskólana. Það er mjög mikilvægt að það gerist. Ég hef þó áhyggjur af því að þeir skólar þar sem stytting náms hefur í rauninni þegar gengið í gegn, eins og í Kvennaskólanum, njóti þess ekki í neinum mæli.

Hérna er ágætisaðgerðaáætlun, og metnaðarfullar áherslur getum við sagt, og ég ætla rétt að vona að hver svo sem tekur við þessu embætti eftir kosningar ráðist í þetta mál og vinni að því vegna þess að staða framhaldsskólanna eins og hún hefur verið undanfarin ár er í raun ólíðandi. Mér finnst ólíðandi að við á Íslandi skulum setja minni pening í framhaldsskólanámið en meðaltal OECD-ríkjanna. Það líður ekki sú vika að við lesum ekki um einhver vandræði í skólunum og það er ekki vegna þess að sóun sé í gangi og að skólameistarar ráði einfaldlega ekki við verkefnið. Það er bara vegna þess að það er of naumt gefið.

Ég vil á síðustu sekúndunum koma inn á verknámið. Það verður að styrkja og styðja við verknámið. Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða á þeim stutta tíma sem hann á eftir í sínu embætti, ég hvet hann til að gera betur.