145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

staða og rekstrarvandi framhaldsskólanna.

[16:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þær þakkir sem hér hafa verið færðar til þeirra hv. þingmanna sem hafa tekið þátt í umræðunni og vil segja að það liggur fyrir í ríkisfjármálaáætlun hversu mikla fjármuni er búið að ákveða að setja inn í framhaldsskólann á næstu árum. Sú tala er orðin opinber. Það liggur líka fyrir að áhrif styttingar eða það að fara úr fjögurra ára í þriggja ára kerfi þýðir að við erum að fara úr 20.000 nema kerfi niður í 16.000 nemenda kerfi. Samanlögð áhrif þessa eru þau að við erum að fara úr því að framlagið var á verðlagi ársins 2016 900.000 kr. árin 2012–2013. Það verður 1.400.000–1.600.000 kr. á nemanda árin 2020–2021. Svona á að standa að stefnumótun í opinberum málum, (ÓÞ: Fækka nemendum.) horfa til lengri tíma — hér er kallað inn: Fækka nemendum. Það er verið að breyta hraðanum sem hefur farið í gegn, það er verið að breyta uppsetningu kerfisins til samræmis við það sem við þekkjum annars staðar, virðulegi forseti. Það er ekki verið að vísa fólki úr skóla með þessu. Það er ekki verið að meina fólki að koma í skólann á þessum aldri. Það er alls ekki svo, virðulegi forseti, en þetta eru áhrifin.

Þarna sjáum við þá í verki þessa stefnumótun og hvað hún þýðir á hvern nemanda. Það þýðir að framlagið er að fara úr 900.000 kr. upp í 1.400.000–1.600.000 kr. Hvað þýðir það þegar það er fram gengið? Þá verður allt annað svigrúm í skólanum til að takast á við ýmis þau verkefni sem verður að takast á við, eins og fjárfestingar í tækjabúnaði, aukna þjónustu við nemendur, það að geta komið með betri sérúrræði þar sem það á við o.s.frv.

Um hvað snýst þetta og hvað höfum við gert? Á þessu kjörtímabili hafa laun kennara hækkað gríðarlega mikið. Við höfum nú þegar hækkað verulega framlagið á hvern nemanda og við munum halda áfram ef ekki verður gripið inn í á næstu árum, ef þetta verður ekki eyðilagt. Ef menn standa bara við það skipulag sem er komið og það plan sem liggur fyrir og er fjármagnað í ríkisfjármálaáætlun (Forseti hringir.) munum við fara með framlagið upp í 1.400.000–1.600.000 kr. á ári og erum þar með komin á sama stað og jafnvel ívið ofar en meðaltal Norðurlandanna. Svona á að standa að langtímastefnumótun í opinberum málum, virðulegi forseti.