145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

búvörusamningur með tilliti til umhverfis- og náttúruverndar.

[16:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Búvörusamningurinn sem er til umfjöllunar í þinginu hefur auðvitað margar hliðar. Ein af þeim sem skiptir máli er umhverfishliðin, þ.e. með hvaða hætti stefnumótun á sviði landbúnaðarmála hefur áhrif á umhverfið. Ég verð að segja að mér finnst í samningnum vera viðleitni til þess að taka meira tillit til slíkra þátta heldur en kannski eldri stefnumörkun á þessu sviði gefur til kynna og ýmsir þættir í þessu sambandi sem veitt er meiri athygli. En ég get tekið undir með ýmsum öðrum ræðumönnum að það mætti gera í meira mæli og sjálfsagt að sú umræða fari fram í þinginu áður en frá þessu er gengið.

Það er síðan annað mál sem ekki heyrir undir þessa umræðu með hvaða hætti búvörusamningar eru gerðir, með hvaða hætti stefnumótun á þessu sviði er ákveðin, hversu mikil eiga áhrif styrkja að vera í þessari atvinnugrein og hvaða vernd landbúnaðurinn nýtur frá erlendri samkeppni. Það eru aðrar spurningar sem er líka mikilvægt að sé spurt í þessu sambandi.

Ég verð að segja að þegar maður horfir á efnisatriði samninga nú þá sýnist mér að vitund um mikilvægi umhverfismála sé að vaxa. Það eru áherslur þarna sem skipta máli í því sambandi. En vafalaust þarf að fara fram ítarlegri umræða um þá þætti áður en frá málinu er gengið af hálfu þingsins.