145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

búvörusamningur með tilliti til umhverfis- og náttúruverndar.

[16:30]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á að þakka hv. frummælanda fyrir að hefja þessa umræðu, enda er það mjög mikilvægt þegar við skoðum svona stóra samninga sem við gerum við landbúnaðinn. Breytingar á búvörulögum eru náttúrlega skuldbinding til framtíðar. Sömuleiðis erum við búin að gera skuldbindingar á alþjóðavísu til að stemma stigu við loftslagsbreytingum.

Það vekur athygli að í VI. kafla um mat á áhrifum er ekki farið í loftslagsmálin og náttúruverndina, en við vitum náttúrlega öll að landbúnaðurinn snýst um að nýta landið. Það kemur svolítið á óvart að þrátt fyrir að hér sé lögð áhersla „á jarðræktarstyrki og tekinn upp nýr stuðningur með svokölluðum landgreiðslum sem greiddar eru út á allt ræktað land sem uppskorið er til fóðuröflunar“, eins og segir í frumvarpinu á bls. 15, með leyfi forseta, að samt sé ekki nein heildstæð stefna um það hvernig það á að vera sjálfbært og að hvaða marki það á að stuðla að náttúruvernd.

Að sama skapi er lausaganga búfjár óumhverfisvæn að miklu leyti, sérstaklega þegar við erum að reyna að græða upp landið. Það getur vel verið að lausaganga fjár samræmist einfaldlega ekki nútímakröfum um náttúruvernd. Það er til dæmis nokkuð sem ég mundi vilja sjá skýrar um í búvörusamningunum. Við þurfum kannski aðeins að endurhugsa hvernig við stundum landbúnað, hvernig við ræktum kjötið okkar, hvernig við búum til mjólkina okkar með tilliti til umhverfisáhrifa. Það er alveg rétt sem hv. þm. Róbert Marshall segir, hér vantar alveg heildstæða stefnu um það hvernig við lítum á landbúnað til framtíðar með tilliti til umhverfisáhrifa.