145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

búvörusamningur með tilliti til umhverfis- og náttúruverndar.

[16:32]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mér finnst mjög brýnt að við ræðum þessi mál. Þótt ég sé ekki sérfræðingur í beit finnst mér áhyggjuefni þegar ég les t.d. umsögn Landgræðslu ríkisins sem eru sérfræðingar á þessu sviði. Ef þeir gera athugasemdir finnst mér að taka eigi það alvarlega. Mér hefur reyndar fundist við, þegar kemur að ofbeit og gróðureyðingu af völdum sauðfjárræktar, svolítið hafa skautað fram hjá vandamálinu, jafnvel flokkar sem kenna sig við umhverfisvernd ekki tekið á því eins og ætti að gera.

Í umsögn Landgræðslunnar sem tekur fram að hún taki í sjálfu sér ekki afstöðu til lagafrumvarpsins sem um ræði, komi bara inn á þann þátt sem snýr að Landgræðslunni, segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Það er hins vegar álit Landgræðslunnar að við gerð þeirra samninga, einkum samningsins um starfsskilyrði sauðfjárræktar, hafi tækifæri til átaks í landgræðslu og áfanga til sjálfbærrar landnýtingar ekki verið nýtt. Það hefði þó mátt gera með þeim hætti að hagur bænda skertist í engu en landið hefði notið góðs af.“

Þetta hljótum við að taka alvarlega. Ég geng út frá því að þetta verði skoðað betur í nefndinni. Það er ekki ásættanlegt að við séum að beita sauðfé á örfoka land, á landsvæði sem Landgræðslan hefur í rauninni skilgreint sem viðkvæm svæði sem þoli ekki beit. Tilfelli þar sem þetta er í gangi eru í miklum minni hluta og ég þekki bændur sem eru ekki sáttir við þetta og ég hvet til þess að gengið verði í þetta mál. Ég vil þakka fyrir þessa góðu umræðu.