145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

búvörusamningur með tilliti til umhverfis- og náttúruverndar.

[16:44]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Hún hefur að mörgu leyti verið mjög málefnaleg. Í okkar elstu lagatextum, þúsund ára gömlum, eru ákvæði sem segja má að hafi átt að tryggja nokkurs konar sjálfbæra nýtingu beitilands á Íslandi. Þess vegna er svolítið átakanlegt að verða vitni að því að hér er ekki horft til þeirra sjónarmiða. Þegar um jafn stóra og ríka hagsmuni er að ræða til jafn langs tíma og gert er ráð fyrir í samningunum hljótum við bæði að hlusta á umsagnir okkar helstu vísindamanna og biðja um leiðsögn frá þjóðinni og bera slíkar ákvarðanir undir hana, sérstaklega þegar stutt er í kosningar. Við þurfum að hafa í huga að framleiðsla lambakjöts hefur hæsta kolefnisspor kjötframleiðslu og umframframleiðsla gengur gegn umhverfisstefnu landsins og þeim skuldbindingum sem fylgja aðild að ýmsum umhverfissamningum Sameinuðu þjóðanna.

Samningarnir eins og þeir líta út eru mjög hvetjandi til aukningar í framleiðslu. Við þurfum að skilgreina hvar stuðningurinn er mikilvægastur. Við þurfum að skilgreina þörf fyrir framleiðsluna og laga hana að neyslu innan lands, við þurfum að skilgreina hvar lítil eða engin nauðsyn er á slíkum stuðningi þar sem nóg er af öðrum atvinnutækifærum. Við þurfum að gera okkur grein fyrir að í mörgum tilfellum getur stuðningur verið mjög hamlandi fyrir fjölbreytta uppbyggingu atvinnuvega í dreifbýli, m.a. með því að koma í veg fyrir að lóðir og pláss fáist fyrir aðra starfsemi sem og íbúðarhúsnæði þar sem uppkaup á framleiðslurétti kvóta væri mun skynsamlegri notkun á fjármunum fyrir framtíð dreifbýlissamfélaga.

Þetta eru atriði sem ég tel að við þurfum að skoða betur (Forseti hringir.) og ég hvet ráðamenn og fulltrúa ríkisstjórnarinnar til að gera það.