145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

almennar félagsíbúðir.

435. mál
[17:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Við erum vonandi að komast á lokakaflann í afgreiðslu þessa frumvarps um almennar íbúðir eða almennar félagsíbúðir, eins og það hefur nú verið kallað á víxl, og er það vel. Eins og sjá má, á þeim gögnum sem frá velferðarnefnd koma við 3. umr. málsins, þá fór áfram fram mikil vinna í nefndinni milli 2. og 3. umr. og þess sér m.a. stað í breytingartillöguskjali sem er upp á 15 tölusetta liði og með fjölda undirstafliða.

Framsögumaður og fleiri hafa gert ágætlega grein fyrir því hvernig þetta er í pottinn búið. Það var sem sagt tekin ný umferð á málinu til þess að reyna að verða við málefnalegum beiðnum mikilvægra þátttakenda í þessu samstarfi um breytingar þar sem voru Samband íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusamband Íslands, Reykjavíkurborg og auðvitað samstarf við ráðuneytið o.s.frv. Nefndin var í sjálfu sér ágætlega kunnug þeim sjónarmiðum sem þar bar á góma og hafði sumpart þegar tekið afstöðu til þeirra, en var tilbúin til að endurskoða mál ef svo bar undir til að ná breiðari samstöðu um hlutina. Þess sér stað í breytingartillögum eins og þeim að við hverfum til baka til upphaflegra hugmynda um nafngiftina, þ.e. þetta verði kallaðar almennar íbúðir, það er niðurstaða sem ég get mjög vel lifað með og er í raun og veru ánægður með að mörgu leyti. Ég ætlaði þó ekki að fara að gerast andstæðingur þess að menn hefðu félagslega skírskotun í nafngiftinni eins og til stóð eftir 2. umr., mér finnst gild rök geta staðið fyrir hvoru tveggja. Það voru röksemdir frá Alþýðusambandi Íslands um að reyna að forðast allt sem gæti teiknað til einhverrar aðgreiningar þeirra sem búa í þessu húsnæði og annars staðar, en hins vegar er þetta að sjálfsögðu félagsleg aðgerð og félagslegt átak í húsnæðismálum. Það er jafn óbreytt þrátt fyrir nafnbreytinguna og áður var.

Í öðru lagi vil ég nefna þá breytingu að taka inn heimild til að deildaskipta uppbyggingaráföngum í húsnæðissjálfseignarstofnun. Það tel ég vera ágæta lausn á því máli. Við sáum strax að áfangaskiptingin, eins og hún var sett upp í frumvarpinu í byrjun, gekk ekki upp gagnvart þegar starfandi aðilum og ýmsum aðilum sem hafa að öðrum sjónarmiðum að gæta í sinni starfsemi, svo sem eins og þeim að tryggja jöfnuð milli allra félagsmanna sinna í húsnæði, jafna út leigu og nota styrk þegar uppbyggðrar stofnunar eða fyrirtækis til að tryggja betri kjör yfir línuna jafnvel líka í nýjum byggingaráföngum eða íbúðum sem keyptar hafa verið í dýrari hverfum o.s.frv. En því þá ekki akkúrat að nálgast þetta svona, að hafa heimild til þess að nýjar húsnæðissjálfseignarstofnanir geti í samþykktum sínum og starfsemi sinni hins vegar byggt á tiltekinni áfanga- eða deildaskiptingu? Það er niðurstaðan að við leggjum það hér til.

Í þriðja lagi um afar vandasaman hlut sem framsögumaður gerði vel grein fyrir, sem sagt bókfærslu stofnframlaga ríkis og sveitarfélaga, í raun annars vegar hjá viðtakandanum, húsnæðissjálfseignarstofnun eða byggingaraðila sem fær þau og er með þau í sínum höndum inni í sínum efnahag í þeim skilningi að hann fékk stofnframlög sem drógu upp í rúmlega 30% af kaupverði eða byggingarkostnaði íbúðanna, en á síðan að skila þeim aftur í fyllingu tímans. Það þarf að gæta að því hvernig þetta er gert, bókhaldslega, reikningsskilalega og í samræmi við endurskoðunar- og uppgjörsreglur, báðum megin. Þetta vafðist þó nokkuð fyrir mönnum. Stofnast af því að málið tók þeim breytingum í undirbúningsfasanum að upphafleg hugmynd um óafturkræf stofnframlög breyttist yfir í að þau skyldu vera óafturkræf og kröfur sveitarfélaga og það breytti eðli málsins.

Í reynd er sú meðferð sem hér er lögð til — að húsnæðissjálfseignarstofnunum, og eftir atvikum öðrum aðilum sem falla undir 2. og 3. tölulið 1. og 2. mgr. 10. gr., sé gert kleift að færa stofnframlögin inn í bækur sínar sem einhvers konar skilyrt eigið fé eða stofnframlag, á meðan sú staða er uppi að þessir fjármunir eru í þeirra höndum og bera ekki vexti — í eðli sínu mjög hliðstætt við það að hér væri um að ræða víkjandi lán. Víkjandi lán eru jú þannig að ef til dæmis fjármálastofnun fær slíkt getur hún talið það sér til eignar með tilteknum hætti, heldur því aðgreindu, en það getur myndað hlut að eiginfjárgrunni stofnunarinnar, en það er lán og það á að koma til endurgreiðslu síðar. Munurinn er auðvitað sá að það er aftan við flest annað hjá stofnuninni og getur tapast ef illa fer.

Þessi leið, að um skilyrt stofnframlög sé að ræða þegar endurgreiðslu er krafist, sýnist ganga upp, hún gerir það klárlega þeim megin sem snýr að húsnæði sjálfseignarstofnana og það kemur til góða í tilviki sveitarfélaganna að heimildir þeirra og venjur til að færa til eignar ýmis verðmæti sem þau hafa með höndum starfsemi sinnar vegna eru rúmar. Ekki er ástæða til að ætla að það sé erfiðara í þessu tilviki en mörgum öðrum. Hvað varðar þátt ríkisins þarf minni áhyggjur að hafa af því, ekki síst í ljósi þeirrar breytingar að stofnframlögin af hálfu ríkisins endurgreiðast beint til Húsnæðismálasjóðs.

Þá er eftir það vandamál að til að jafnræðis sé gætt verður að finna leiðir til þess að aðrir lögaðilar, önnur form, svo sem eins og hlutafélög eða annars konar félagsform sem til dæmis sveitarfélög eða samtök hafa kosið að hafa um sín húsnæðismál, þurfa þá að geta farið með þetta með sambærilegum hætti. Reynt er að ná utan um það með því að slíkt verði útfært í reglugerð en hæstv. ráðherra jafnframt falið í bráðabirgðaákvæði að hefja þegar undirbúning að lagalegri skoðun á þessu atriði og leggja fram tillögur að lagabreytingum gerist þess þörf til þess að jafnræðis verði gætt í þessum efnum.

Ég vil staldra örlítið við 11. tölulið breytingartillagnanna, það er spurningin um það hversu miklu af eftirstæðum leigutekjum rekstraraðila almennra íbúða eigi að ráðstafa í húsnæðismálasjóð þegar upphafleg lán til fjármögnunar á íbúðunum og stofnframlög hafa verið endurgreidd. Frumvarpið gekk út frá því að þetta hlutfall væri 2/3 í byrjun. Það fannst velferðarnefnd of hátt. Við vildum skipta þessu öðruvísi þannig að rekstraraðili húsnæðisins sjálfur gæti byggt upp styrk en sæi ekki bara á eftir svona miklu af leigutekjum sínum af þegar afskrifuðu húsnæði beint til baka í Húsnæðismálasjóð. Það er fullgilt sjónarmið enn í dag að það þarf að huga að sjálfbærni beggja aðila í kerfinu. Ekki er ástæða til að hafa miklar áhyggjur af þeim aðilum sem þegar eru sterkir eins og Félagsbústaðir, Félagsstofnun stúdenta og Brynja, Hússjóður Öryrkjabandalagsins, þar sem menn eru kannski með 50–70% eiginfjárhlutfall í dag. Þeir eru að sjálfsögðu vel færir og vel staddir til að takast á við þessi nýju og krefjandi verkefni. Ég hef áhyggjurnar af nýju aðilunum sem ætla að koma inn á markaðinn. Þeir þurfa sem fyrst að verða sæmilega fjárhagslega burðugir. Það gerist seinna en ella ef þeir þurfa ekki bara að kljást við fyrstu 50 árin sem grunnfjármögnunin er endurgreidd á, plús jafnvel 15 ár sem stofnframlögin endurgreiðast á og þá tekur við framtíð þar sem stærstur hluti afkomu þeirra, vegna reksturs íbúðanna, færi beint í Húsnæðismálasjóð. Eftir nokkurt þóf er niðurstaðan í raun og veru sú að mætast á miðri leið og leggja til að þessum ávinningi verði í framtíðinni skipt til helminga. Það er, held ég, ágæt niðurstaða sem vonandi allir geta unað við.

Breytingar sem velferðarnefnd hefur lagt til og gerir hér og gerði við 2. umr. lagar að mínu mati þetta mál geysilega til, gerir það bæði félagslegra og byggðapólitískara og miklu líklegra til þess að ná markmiðum sínum. Það skiptir auðvitað mestu máli. Það gerist meðal annars í gegnum það að búið er að gera þær breytingar sem þarf til þess að þegar starfandi aðilar sjái sér fært að koma inn í kerfið og taka til starfa af krafti á þessum forsendum. Það gerist með því að við erum að reyna að teygja okkur í átt til markmiðanna um að leigukostnaðurinn verði ekki nema 20–25% af ráðstöfunartekjum, til dæmis með því að taka inn heimild til 4% viðbótarstofnframlaga sem eru óafturkræfur styrkur þegar um er að ræða að byggt er fyrir tekjulægstu hópa sveitarfélaganna eða námsmenn og öryrkja. Og með því að taka inn heimildir til þess að bæta við 6% plús 4% stofnframlögum þegar verið er að kljást við aðstæður í byggðarlögum þar sem þær eru hvað erfiðastar í þessum efnum, þar sem fasteignaverð er svo lágt að það kemur meira og minna í veg fyrir að menn treysti sér til að byggja vegna afskriftaráhættunnar sem því er samfara að byggja nýtt húsnæði vitandi að fasteignamarkaðurinn er kannski helmingur eða 1/3 af stofnkostnaðinum innan tíðar ef húsnæðið yrði til sölu.

Þetta ákvæði bind ég miklar vonir við. Ég trúi að ég tali þar fyrir hönd allrar nefndarinnar. Við reiknum með því og göngum út frá því að þessar heimildir verði nýttar. Þær eru hluti af afgreiðslu málsins. Þær eru þar til þess, eins og ég segi, að mæta gildum sjónarmiðum, annars vegar byggðapólitískum og hins vegar félagslegum, og þær skipta máli í sambandi við það að gera það raunhæfara að markmið laganna náist um að leigukostnaðurinn verði viðráðanlegri. Það gerist líka í gegnum það að nú reiknum við almennt með því, og ég trúi að það verði reyndin, að lánstíminn verði lengri, að menn taki í byrjun lán til 50 ára eða að menn nýti sér endurfjármögnunarmöguleika þannig að endurgreiðslurnar komi til á 50 árum. Það munar alveg gríðarlega miklu borið saman við upphaflegar reikningsforsendur frumvarpsins um 30 ár, sem er allt of stuttur afskriftatími af fjárfestingu af þessu tagi og hefur í för með sér að fyrsta kynslóð leigjendanna borgar í raun allt í staðinn fyrir að eftir því sem lánstíminn er lengri þá dreifist það á fleiri herðar og líklegra að það verði tvær til þrjár kynslóðir íbúa í íbúðunum sem deili með sér þeim kostnaði að koma húsnæðinu upp. Þetta skiptir miklu máli.

Ég vona, frú forseti, að þetta sem hér er að verða að veruleika gagnist okkur vel sem liður í lausn húsnæðisvanda landsmanna, sem er ærinn og margþættur, og að þetta verði upphafið að farsælum aðgerðum sem auki húsnæðisöryggi, bæti kjör tekjulægri hluta samfélagsins í þeim mæli sem það nær; það er jú sá hópur samfélagsins sem eðli málsins samkvæmt á erfiðast með að kljúfa mikinn kostnað vegna húsnæðisöflunar.

Ég verð hér í lokin að vara við oftrú á það að þetta eitt og sér sé það stóra sem leysi allan vanda. Ég bið menn að fara varlega í slíku jafnvel þó að kosningar séu í nánd. Þetta verða þá kannski 2.400 íbúðir á einhverjum þrem til fimm árum, það er nú ekki svo óskaplega mikið. Það er ekki nema rétt rúmlega að byggja yfir einn árgang í landinu, ef það dreifist um landið í einhverjum mæli þá er það, séð í samhengi heildarþarfanna fyrir húsnæði í landinu, ekki mikið. En allt sem er til bóta í þessum efnum vill maður að sjálfsögðu styðja og leggur með glöðu geði í það vinnu sína og krafta. Ég held sömuleiðis, og ég vil líka vara dálítið við þar, að það megi allt ganga óskaplega vel til þess að markmiðin, um 20–25% ráðstöfunartekjur þessara tekjulægri hópa, náist, að ekki fari meira í húsnæðiskostnaðinn. En allt sem verður til lækkunar frá því sem við horfumst í augu við í dag, þar sem þetta eru iðulega 40–50%, er aftur til bóta og því styður maður það.

Varðandi húsnæðisbæturnar má segja sem svo: Jú, þær eru að sjálfsögðu mikilvægar í þessu samhengi líka og þeim er ætlað að hjálpa til við að ná þessum leigukostnaði eitthvað niður, en höfum þá í huga að inn í fyrstu nýju íbúðirnar í þessu kerfi verður að sjálfsögðu ekki flutt fyrr en eftir tvö til þrjú ár. Þörfin á að gera betur og styðja betur við leigjendur blasir við. Það hefði mátt gera þó fyrr hefði verið með meiri aðgerðum. Ég er þar ekki bara að gagnrýna núverandi ríkisstjórn, það má vel segja að við hefðum þurft (Forseti hringir.) að gera betur líka í þeim efnum á síðasta kjörtímabili þó að erfitt væri í búi, því að sennilega er þetta sá hópur sem hvað minnstrar athygli naut á meðan öll athyglin var á að færa niður skuldir þeirra sem þó eiga húsnæði.