145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

almennar félagsíbúðir.

435. mál
[17:58]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Ég get þó ekki látið hjá líða að lýsa vonbrigðum mínum með breytingu á heiti frumvarpsins. Við komumst að samkomulagi um að breyta fyrirsögn frumvarpsins í almennar félagsíbúðir. Við samþykktum það eftir 2. umr. í atkvæðagreiðslu og síðan var málið tekið inn til nefndar á milli 2. og 3. Þá kemur í ljós að fulltrúar Alþýðusambands Íslands eru ósáttir við heitið og óska eftir að það verði tekið til baka og vísa til þess að unnið hafi verið í langan tíma að frumvarpinu og það hafi alltaf verið nefnt almennar íbúðir. Menn á þeim bænum voru ekki sáttir við þessa breytingu nefndarinnar.

Virðulegur forseti. Eins og hv. 5. þm. Norðvest., Ólína Þorvarðardóttir, ræddi hér áðan finnst mér við vera að láta undan í máli sem er hálfkjánalegt að mínu mati. Þetta er félagslegt átak í húsnæðismálum. Það er engum blöðum um það að fletta. Markmið frumvarpsins er að koma til móts við þá sem lægst hafa launin í þessu landi, til að auðvelda fólki að búa í öruggu húsnæði til lengri tíma. Ég segi á sama hátt og hv. þm. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir: Við þurfum kannski fyrst og síðast að breyta hugarfari okkar áður en við förum að breyta hugtökum um það sem verulegu máli skiptir. Ég er hins vegar ekki með fyrirvara í þessu máli varðandi þá skoðun mína en áskil mér allan rétt til að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um þetta í ljósi þess sem ég hef áður sagt en mun að sjálfsögðu fylgja frumvarpinu eftir við 3. umr. á sama hátt og gert var og ég gerði og liðsmenn Sjálfstæðisflokksins hér á þingi. Ég vænti þess að svo verði einnig um þær breytingartillögur sem liggja fyrir.

Það er vert að minnast eins og hér hefur komið fram að nú er gefin heimild, í stað þess þar sem áður var rætt um áfangaskiptingu, til að aðilar sem fara í byggingu slíkra íbúða með stofnframlagi frá ríki og sveitarfélögum geti ákveðið innan sinna félagasamþykkta að deildarskipta og fara þannig sjálfir með ákveðið vald um það með hvaða hætti þeir horfa til leigunnar.

Það kom líka fram ósk um að þeir aðilar sem færu að byggja samkvæmt því fyrirkomulagi sem hér er lagt til gætu skráð stofnframlag bæði ríkis og sveitarfélags aðallega sem eignfært fé í sínum bókum og að sveitarfélögin ættu að geta gert slíkt hið sama. Því var fundin sú leið að nefna þetta stofnfé skilyrt stofnfé. Þegar til endurgreiðslu kæmi yrði féð innleyst með útgáfu skuldabréfs. Ég held að þetta sé farsæl lausn. Á það var bent að ef um ekkert eigið fé væri að ræða, ef stofnframlögin væru sett inn sem skuld í þeim húsnæðissjálfseignarstofnunum sem þarna eru, hses, (Gripið fram í: Háses.) ef það yrði skuld þar inni, gæti fjármögnun á öðrum hluta uppbyggingar orðið lélegri en ef um eigið fé væri að ræða. Ég held að þetta hafi verið sanngirnismál og nefndin kom til móts við það.

Sömuleiðis skiptir máli með hvaða hætti við ætlum að byggja upp Húsnæðismálasjóðinn. Það var sett inn að eigendur almennra íbúða skyldu greiða 2/3 hluta leigugreiðslna að fráteknum rekstrarkostnaði í Húsnæðismálasjóð þegar lánin og stofnframlögin hefðu verið endurgreidd. Hlutfallið var 40%. Það var hækkað í 60%. Fram komu athugasemdir við það og þá var farið bil beggja og hlutfallið sett í 50%.

Ég held að þetta frumvarp, sem ég leyfi mér að kalla frumvarp til laga um almennar félagsíbúðir þar til því hefur verið breytt, sé merkur áfangi í því að búa svo um hnútana að þeir sem að jafnaði hafa minnst úr að spila eigi kost á að búa í öruggu húsnæði til lengri tíma. Það eitt og sér er verðugt verkefni. Ég vil gera eins og aðrir og þakka samnefndarmönnum mínum í velferðarnefnd fyrir mjög skilvirka vinnu. Velferðarnefnd hefur sýnt í störfum sínum með jafn stór og mikil mál og húsnæðismál hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra eins og þau voru og hafa verið lögð fram, að þrátt fyrir ágreining, pólitískan ágreining um ýmislegt sem í þessum frumvörpum hefur verið, hefur nefndinni engu að síður tekist að tala sig niður á lausnir. Hún hefur verið lausnamiðuð í allri sinni vinnu. Það sýnir okkur svart á hvítu á hinu háa Alþingi að stundum er auðvelt að láta lausnina vera í sjónmáli frekar en vandamálið. Það sýndi velferðarnefnd í þessum málum og slíkt ber að þakka.