145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[20:10]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju, sem snýst í raun um samgöngumál til Vestmannaeyja. Ég verð að viðurkenna að ég hef verið í hópi efasemdamanna um smíði á þessu skipi og hef ekkert farið leynt með það og er þar í hópi margra heimamanna í Vestmannaeyjum, þá helst sjómanna og þeirra sem þekkja aðstæður best við suðurströndina. Ég sit í fjárlaganefnd og skrifa undir nefndarálitið sem er til umræðu og ég verð að viðurkenna að þegar nefndarálitið var borið upp í nefndinni þá ætlaði ég að samþykkja það með fyrirvara og taldi að félagar mínir í fjárlaganefnd væru ekki í sama hópi og ég og félagar mínir í Vestmannaeyjum að efast um ágæti þessarar ferju. Minn fyrirvari á álitinu átti að vera sá að selja ekki gamla Herjólf, það væru það margir óvissuþættir með nýja skipið og siglingar þess til Landeyjahafnar að það væri glórulaust annað en að hafa gamla skipið til vara. Viti menn, félagar mínir voru alveg jafn efins um að skipið mundi duga.

Því verð ég að fagna því að þeir féllust á að setja þetta inn í álitið sem mun væntanlega styrkja það að Herjólfur verði til vara, ég trúi ekki öðru, það verði plan B ef eitthvað kemur upp á. Við skulum ekkert vera með neinar blekkingar. Staðan er sú að við getum ekki stólað á þessa nýju ferju yfir hörðustu vetrarmánuðina. Þá eru menn að ætla að Vestmannaeyjar verði nánast sambandslausar í einhverja daga. Eftir að hafa skoðað þetta betur tel ég að óvissuþættirnir séu margir, bæði dýpið í Landeyjahöfn og svo þessi viðkvæmi búnaður í skipinu. Þetta er ákveðið tilraunaverkefni. Það er verið að fara út í hagkvæmari rekstur og það má vel vera, það er verið að fara út í þennan skrúfubúnað sem er að vísu miklu betri til þess að stjórna skipinu inn, en að sama skapi er meiri áhætta að eitthvað komi upp á. Þeir sem til þekkja vita að skip sem þjóna olíuiðnaðinum eru búin slíkum búnaði og það eru íslensk tryggingafélög sem tryggja þann búnað. Það segja mér menn sem þekkja þar til að bilanatíðnin á þessum búnaði sé mjög há. Þau skip sem eru búin þessum búnaði þjóna olíuiðnaðinum úti á rúmsjó þar sem nægt dýpi er og þar eru tjónin mikil. Þess vegna spyr maður sig hvað gerist þegar þessi búnaður verður kominn í notkun við þær aðstæður í Landeyjahöfn þar sem dýpið er tiltölulega lítið og mikill sandur. Þá er ég ansi hræddur um að það eigi eftir að verða einhverjar frátafir. Vonandi verða það bara minni háttar viðgerðir. Í því sambandi velti ég því upp að ef það fara pakkdósir í þessum búnaði þá þarf væntanlega að taka skipið upp. Við erum alltaf að tala um nokkurra daga frátafir.

Ef við erum að tala um samgöngubætur til Vestmannaeyja á heilsársgrundvelli verðum við að tryggja að vöruflutningar til Eyja detti ekki niður í nokkra daga í senn. Við vitum öll að sérstaklega í sjávarútvegi byggist reksturinn mikið upp á afhendingaröryggi. Það er verið að flytja fisk í land, það er verið að flytja fisk í flug þannig að við getum ekki boðið Vestmannaeyingum upp á að það verði frátafir í marga daga.

Eins og ég sagði hafa heimamenn, þeir sem þekkja vel til við suðurströndina, bent á marga galla á uppbyggingu við Landeyjahöfn og varað við því hversu alvarlegt það mál væri og í rauninni mikil óvissa með þá höfn, en ekki hefur verið hlustað á þá. Mig langar líka að nefna að bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur verið einörð í afstöðu sinni til byggingar þessarar ferju og það setur okkur stjórnmálamenn í þá stöðu að það er erfitt að hunsa alveg það álit. En það hefur líka komið fram tær vilji frá bæjarstjórn Vestmannaeyja að þeir kæra sig ekki um að farið verði í einkarekstur á ferjunni. Þess vegna varð ég fyrir smávonbrigðum að sá möguleiki væri fyrir hendi og það yrði bara í höndum Vegagerðarinnar að ákveða hvor leiðin yrði farin. En hvað um það, einkarekstur eða ekki einkarekstur, það er kannski ekki höfuðmálið hvað mig snertir. Það er þessi viðkvæmi búnaður. Það kemur fram í frumvarpinu að þetta er það mikill sparnaður, það er ódýrara að reka skipið, en ég er ansi hræddur um að sá sparnaður verði fljótur að eyðast upp ef það verður mikil bilanatíðni á búnaði skipsins. Ég skal ekki alveg segja um það. Ég geri ráð fyrir því að kannaður verði sá möguleiki að hægt verði að skipta um skrúfubúnaðinn á floti þannig að varaskrúfubúnaður verði nánast til á lager.

Það má kannski segja að það sé að bera í bakkafullan lækinn að ræða þessi Herjólfsmál. Við erum búin að ræða þau í nokkuð mörg ár og í rauninni tíu ára saga frá því að farið var að hanna þessa höfn hvort vandamálið sé skipið eða höfnin. Sérfræðingar hjá siglingasviði Vegagerðarinnar viðurkenna að það geti tekið mörg ár og muni jafnvel aldrei takast að skapa þarna trygga heilsárshöfn. Við þurfum að taka ákvörðun hvort sem það er að smíða þetta skip eða eitthvað annað. Ég hefði reyndar haldið að betra hefði verið að fara í heldur stærra skip. Mér finnst það ekki vera framför að taka minna skip, að bjóða Vestmannaeyingum upp á minna skip en þeir hafa í dag. Við sem þekkjum til vitum að ef skip er mjórra og ristir grynnra þá erum við að tala um minna skip. Er ég þá að hugsa um ferðir þess til Þorlákshafnar. Þetta skip mun ekki verða eins hagstætt og fara eins vel með farþega til Þorlákshafnar og núverandi Herjólfur.

Óvissan er á mörgum sviðum, t.d. sandurinn. Í nýrri ríkisfjármálaáætlun eru auðvitað ekki 4,8 milljarðar, þar er reiknað með 6 milljörðum. Þá er dælubúnaðurinn kominn inn í, fastur dælubúnaður í Landeyjahöfn. Það er einn óvissuþáttur hvernig hann mun reynast og hvernig hann verður hannaður. Það er því að mörgu að hyggja og það er ekki bara einn óvissuþáttur heldur eru þeir fleiri. Forsendurnar eru aðrar í dag en þær voru fyrir tíu árum þegar lagt var upp með þetta dæmi. Grundvöllur fyrir ölduhæðinni, sú áætlun um ölduhæð stenst ekki, það er komið í ljós. Flutningarnir eru orðnir miklu meiri en var í þeirri áætlun á þeim tíma, þannig að forsendurnar eru aðeins aðrar í dag en voru þá.

Vonbrigðin eru kannski samt sem áður þau að þó að búið sé að fjárfesta í dælubúnaði er enn þá gert ráð fyrir 250–300 milljónum í sanddælingu í Landeyjahöfn. Í samgönguáætlun 2015 voru það 387 milljónir í dælingu, núna 2016 384 milljónir, 2017 345 milljónir og 2018 er gert ráð fyrir 238 milljónum. Það eru vonbrigði að ekki muni sparast nema 50 milljónir í sanddælingu. En ég vona samt að þessar áætlanir standist ekki og við getum sparað eitthvað meira, það sparist meira í sanddælingunni.

Það segir hér að reynt hafi verið að fá leiguskip. Ég þekki það reyndar ekki alveg, en það stóð til boða að fá leigt skip sem ég held að allflestir viti um og muni eftir. Það voru mikil vonbrigði að það hafi ekki verið reynt. Þar var með þessum skrúfubúnaði. Það hefði verið hægt að fá svar við mörgum spurningum með því að fara aðeins hægar í sakirnar og prófa það.

Ég segi bara að það er svolítill örvæntingarstimpill á þessu. Við verðum að ákveða eitthvað. Það kemur lítið nýtt fram núna í málinu þannig að við þurfum að taka ákvörðun. Ég get alveg tekið undir það. En ég hef líka svolitlar áhyggjur af því að þegar þetta skip verður komið verði væntingarnar orðnar svo miklar og kröfurnar verði miklar til skipstjóranna á þessum skipum. Hvað gerist ef eitthvað kemur upp á? Ég spyr bara að því. Við vonum það besta, en við verðum kannski að gera ráð fyrir því versta. Til sjós er það regla að gerðar eru björgunaræfingar. Ég velti fyrir mér ef eitthvað kemur upp á með þetta skip hvað það taki langan tíma að bjarga farþegum sem eru um borð. Úti á rúmsjó eru málin öðruvísi. Þá getur skapast tími til að fara í björgunarbáta eða eitthvað því um líkt, en ef eitthvað kemur upp á í brimgarði fyrir framan svona hafnir með 500–600 manns um borð, þá er ekkert grín að bjarga þeim. Við svoleiðis aðstæður fara menn ekki í björgunarbáta. Þá er þyrlan nánast það eina sem getur bjargað. (Gripið fram í: Þá þarf að …) Við verðum að passa okkur á því að það verði ekki of mikill þrýstingur á skipstjórana, og auðvitað treysti ég þeim til þess, en það má ekki verða þrýstingur á skipstjórana að sigla til Landeyjahafnar frekar en til Þorlákshafnar. Ég hef áhyggjur af því. Ég veit að ef eitthvað kemur upp á þá verða ekki stjórnmálamenn fyrstir á svæðið. Þá er ég hræddur um að skipstjórarnir standi einir og verði látnir víkja eins og dæmin sanna.

Ég tek samt undir það að við verðum að taka ákvörðun. Ég hef eins og ég sagði áðan ekkert farið leynt með að ég hefði valið aðra leið. Ég hefði kosið að við tækjum stærra skip þó að dagarnir sem menn kæmust til Landeyjahafnar yrðu færri, en það færi þá betur með farþega til Þorlákshafnar, það væri öruggari sigling og betur hægt að stóla á vöruflutninga yfir háveturinn.

Við þurfum ekkert að velkjast í vafa um þá samgöngubót sem sigling til Landeyjahafnar er. Þetta er náttúrlega ótrúleg bylting sem allar tölur sýna og sanna og það er enginn að tala um að fara að snúa til baka og fara að sigla allt árið til Þorlákshafnar.

Stundum þarf maður að láta í minni pokann. Þá er ekkert annað en að reyna að vinna úr því og gera það besta úr því. Ég held því ekki fram að ný ferja upp á 5 milljarða sé slæmur kostur. Auðvitað verður það gott skip. En ég hefði kosið að það væri aðeins öflugra skip sem færi betur með farþega til Þorlákshafnar og við gætum verið með öruggari vöruflutninga þangað.