145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[20:29]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni mjög greinargóða ræðu þar sem margar ágætisupplýsingar komu fram. Ég er með mjög einfaldar spurningar. Nú er árið 2016 og af hverju hefur ekkert gerst í þessu máli fyrr en núna? Af hverju er staðan óbreytt frá 2013? Af hverju erum við með nákvæmlega sömu ferju? Hún hefur ekki verið boðin út. Það er enn þá vesen á höfninni. Það er ekki búið að ákveða að setja meira fjármagn i rannsóknir. Staðan er nákvæmlega sú sama og þegar síðasta ríkisstjórn var við völd. Hvernig stendur á því? Það er ein af þeim spurningum sem vakna hjá mér við þennan tillöguflutning.

Önnur spurning er: Af hverju tala menn um frátafir og dælingu og þyngdarstöðugleika og djúpristu í fjárlaganefnd? Hvernig stendur á því að menn eru farnir á dýptina, bókstaflega, í umræðu um samgöngumál í fjárlaganefnd? Af hverju er þetta mál ekki í samgöngunefnd þingsins?

Ég hef trúað því hingað til að meiri háttar framkvæmdir, í rauninni allar framkvæmdir í samgöngumálum, ættu heima í samgöngunefnd þingsins. Hvernig stendur á því að það er ekki einu sinni óskað eftir umsögn frá samgöngunefnd í þessu máli? Í rauninni ætti það að vera þannig að það væri á borði samgöngunefndar og fjárlaganefnd mundi skila umsögn um málið til samgöngunefndar.

Ég velti fyrir mér, vegna þess að sú ríkisstjórn sem ég studdi á síðasta kjörtímabili var sökuð um mikinn aumingjaskap og vesældóm í þessu máli: Hvernig stendur á því að þeir sem það gerðu eru með málið á nákvæmlega sama stað og það var fyrir þremur árum?