145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[20:33]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er um miklu stærri upphæðir að ræða í samgönguáætlun. Af hverju er það ekki í fjárlaganefnd ef þetta er röksemdafærslan fyrir því að þetta mál sé þar en ekki í samgöngunefnd? Það er alveg rétt að hv. þingmaður var ekki hérna á síðasta kjörtímabili en hann er búinn að vera hérna í þrjú ár og ríkisstjórnin er búin að vera með þetta mál á sínu borði í þrjú ár og það hefur ekkert gerst. Svo eru sex mánuðir í kosningar og þá allt í einu eru menn í rosa spreng að klára útboð.

Ég var aðstoðarmaður ráðherra í samgönguráðuneytinu fyrir átta árum og þá var farið í útboð. Síðan varð hrun og fresta þurfti öllum áformum um smíði nýrrar ferju. Tekin var ákvörðun um að gera nýja höfn og nýja ferju sem passaði við þá höfn. Auðvitað var ekki nógu gott að menn skyldu ekki hafa farið í það á síðasta kjörtímabili að klára útboðsmálin. Það var gagnrýnt mjög harðlega. En það er mjög aumingjalegt að þeir sem gagnrýndu þetta allan tímann og tóku síðan við gerðu ekkert fyrr en þeir voru algerlega komnir á síðasta séns með málið, þá loksins glitti í einhverjar tilraunir til að krafsa yfir það.

Mér finnst þetta eitthvað sem menn þurfa að svara fyrir. Ég kaupi ekki þær skýringar að þetta sé svo frábrugðið öðrum samgönguframkvæmdum að málið þurfi að vera í fjárlaganefnd. Það er ekki í samgönguáætlun og ekki í samgöngunefnd. Ég velti fyrir mér hversu vönduð sú ákvörðun og ákvarðanataka sé sem liggur að baki þarna. Ég átta mig ekki alveg á því hvaða forsendur t.d. menn hafa í fjárlaganefnd til að segja að það þurfi að halda gömlu ferjunni. Eru menn búnir að reikna út kostnaðinn við það? Vita menn nákvæmlega hvað það kostar að vera með tvær ferjur í rekstri og halda annarri við o.s.frv.? Ég vil gjarnan heyra skýringar hv. þingmanns á þessu.