145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[20:36]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af hverju ræðum við þetta í fjárlaganefnd? Í fjárlaganefnd ræðum við þennan doðrant hér, ef hv. þingmaður veit það ekki, um opinber fjármál 2017–2021, fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Þar eru akkúrat þessi mál; Herjólfur, dýpkun í Landeyjahöfn. Ef við eigum ekki að ræða þetta og fara aðeins dýpra í þau mál þá veit ég ekki hvað við eigum að gera. (Gripið fram í.)Svo stangast þetta á sitt á hvað, það getur vel verið, ég veit ekkert um það. Ég veit aðeins að í dæmi eins og við erum að tala um, upp á eina 5,6 milljarða, og svo við fáum kannski 500 milljónir fyrir Herjólf, þá finnst mér ósköp venjuleg skynsemi að hinkra aðeins með að selja hann svo við verðum ekki með Vestmannaeyjar samgöngulausar í einhverja daga eða einhverjar vikur eða guð má vita hvað. Mér finnst því eðlilegt að fjárlaganefnd ræði þetta. Varðandi samgönguáætlunina á það auðvitað líka heima þar. En það er búið að vera að hanna þessa ferju og með tímanum hefur hún þróast. Hún er ekki eins og hún var upphaflega, hún hefur skánað mikið. Hún er orðin lengri, ég er sáttur við það, hún er orðin stærri en hún var upphaflega. Það hefur því margt jákvætt gerst. Við höfum verið að bíða eftir fullnaðarhönnun á þeirri ferju. En hún er þó aðeins skárri en þegar lagt var upp með þetta.