145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[20:47]
Horfa

Frsm. fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessa ræða kemur nokkuð á óvart. Í fyrsta lagi hefur auðvitað verið minnst á þetta í plöggum ríkisstjórnarinnar. Ég nefni eitt dæmi, í síðasta nefndaráliti, þ.e. ekki fyrir síðustu fjárlög heldur þar á undan, var þetta sérstaklega tilgreint í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Hv. þingmaður veit það. Þó að menn hafi haft uppi gagnrýni hef ég ekki heyrt neinn halda því fram að nýtt skip sé ekki jafn gott og það sem var á undan. Við getum haft allar skoðanir á Landeyjahöfn, en ég minni á að þetta er öruggara skip. Núna er bannað að hafa farþegarými fyrir neðan bílaþilfar. Af hverju? Vegna þess að það dóu mjög margir í Estoniu út af nákvæmlega þeim þætti. Það þýðir hins vegar að ef maður fer ofar líður manni ekki jafn vel þegar slæmt er í sjóinn. Þetta er miklu umhverfisvænna sem maður mundi nú ætla að talsmenn Vinstri grænna hefðu kannski minnst einu orði á. Í ofanálag, þetta er ódýrara í rekstri.

Virðulegur forseti. Tímaplanið. Af hverju er það? Af hverju erum við að gera þetta núna? Vegna þess að sú staða er uppi hjá skipasmíðastöðvum, út af verkefnaleysi, að líklegt er að við getum fengið gott tilboð.

Ferðaþjónustan og íbúarnir eru algjörlega samtengdir. Aukningin í atvinnulífi okkar Íslendinga er í ferðaþjónustu. Vestmannaeyjar eru ekkert öðruvísi en aðrir staðir á landinu hvað það varðar. Ef samgöngur eru ótryggar þá þýðir það það að menn geta ekki byggt upp ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum. Þetta hangir algjörlega saman. Hv. þingmaður heldur því fram að allir gestir hafi verið neikvæðir. Við báðum alla þá gesti sem voru með gagnrýni að koma fyrir fund nefndarinnar. Þannig finnst mér að eigi að vinna. Ég var gagnrýninn á þetta. Ég er gagnrýninn á alla hluti. Við eigum að vera gagnrýnin á þetta. Síðan fengum við svör við þeim spurningum. Niðurstaðan varð sú að við töldum, eins og kemur fram í nefndarálitinu, að skynsamlegt væri að gera þetta með þessum hætti.