145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[20:52]
Horfa

Frsm. fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ferðaþjónustan snýst ekki um einstaka verta. Útflutningstekjur af ferðaþjónustunni á næsta ári verða hærri en samanlagðar tekjur af sjávarútvegi og álverum. Hagvöxturinn er drifinn áfram af ferðaþjónustu. Aukning starfa er drifin áfram af ferðaþjónustunni. Ég efast um að hægt sé að fjölga störfum mjög mikið í kringum sjávarútveg í Vestmannaeyjum, en maður getur fjölgað þeim í ferðaþjónustu. Þetta snýst ekki bara um hásumarið. Ferðaþjónustan er yfir allt árið núna sem betur fer. Það eru 300 þús. manns sem fara á milli lands og Eyja núna, samt sem áður eru þar frábærar aðstæður fyrir ferðaþjónustuna og hefur verið byggt mikið upp. Þannig að þetta snýst ekki bara um sumartímann.

Ég nefndi af hverju þetta tiltekna mál er komið fram varðandi farþegaþilfarið og Estoniu. Auðvitað eru fleiri þættir. Það sem kom hins vegar fram í umræðum í nefndinni þegar kemur að öryggismálum er að það eru fá skip í Norður-Evrópu, ferjur, sem eru búin eins og Herjólfur er núna. Það er ábyrgðarhluti fyrir stjórnvöld að halda því áfram. Það er ekkert í hendi varðandi Landeyjahöfn. Við erum ekki að fjalla um það, en það er þá annaðhvort að ákveða að hætta við þetta eða að mínu áliti að vera með sómasamlegt skip til þess að sigla á milli. Ég er ekki tilbúinn til þess að taka þá ákvörðun, þó svo að áætlanir um Landeyjahöfn hafi ekki allar gengið eftir, að gefa hana upp á bátinn núna.

Varðandi plan B. Mér finnst það vera skynsamlegt af öllum ástæðum, sérstaklega þegar við fáum ekki meiri fjármuni en um ræðir fyrir gamla Herjólf, að hafa hann til staðar líka. Mér finnst það svolítið sérkennilegt að leggja þetta upp með þessum hætti.

Mér vitanlega á þetta ekki að hafa nein áhrif á samgönguáætlun. Við þurfum hins vegar að fara yfir ríkisfjármálaáætlun til lengri tíma, það er að mörgu að hyggja. Þetta mál eitt og sér snýr að því hvort við eigum að bjóða út nýtt skip sem siglir á milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar.