145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[20:58]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir að þetta mál sé komið til þingsins aftur og þakka hv. fjárlaganefnd kærlega fyrir þá miklu vinnu sem þau hafa lagt í þetta mál. Ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að fara yfir rökin með málinu. Ég tel að framsögumaður nefndarinnar, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, hafi gert það vel og tek undir það sem kom fram í máli hans.

Það sem ég vil skerpa á er að við erum að tala um fjárlagaheimildarmál. Þetta er samgöngumál sem er löngu búið að taka ákvörðun um. Það er meira að segja búið að leggja af stað í útboð einu sinni áður með það að byggja nýtt skip í staðinn fyrir Herjólf, þannig að ákvörðunin var tekin fyrir löngu af Alþingi Íslendinga. Nú erum við að fá fjárlagaheimildina og um það snýst málið. Ég vil benda á að þegar við ræðum einstaka vegaframkvæmdir eða gangagerð erum við ekki að tala um úr hvaða plasti stikurnar eiga að vera eða hvernig þetta er merkt. Mér finnst umræðan hér hafa þróast út í tæknileg atriði sem er framkvæmdarvaldsins að útfæra. Við ætlum að taka ákvörðun um að klára þá samgönguframkvæmd sem var byrjuð og það eigum við að gera.

Ég vil líka benda á að núverandi Herjólfur er 26 ára gamall. Að meðaltali hafa ferjur á milli Vestmannaeyja og lands verið endurnýjaðar á að minnsta kosti 15 ára fresti. Við erum að fjárfesta í nýju öruggara skipi sem mun bæta samgöngur. Ég segi að þetta sé ódýrasta rannsóknin fyrir Landeyjahöfn. Það mun koma í ljós hvort, sem flestir búast við, ég tek það fram, hvaða og hversu viðamiklar breytingar á Landeyjahöfn þarf að fara í þegar við fáum reynslu á þetta skip. Það verður ekki neinn sokkinn kostnaður fólginn í því að fá þessa ferju. Ég legg mikla áherslu á það. Ef við tökum aðra ákvörðun um að klára að laga höfnina fyrst erum við að tala um margra, margra ára töf á nokkurri samgöngubót í Vestmannaeyjum. Það gengur ekki upp. Þarna getum við fengið betri samgöngur fyrir lægstu fjárhæðina og fyrir stysta tímann, þótt við séum ekki fullviss um að það verði 100%.

Ég fagna því sem kemur fram í nefndaráliti hv. fjárlaganefndar en hún leggur til að núverandi Herjólfur verði ekki seldur. Ég tel að kostnaður sem hlýst af því að eiga hann áfram og hafa hann í rekstri til vara, ef eitthvað kemur upp á, verði ekki mikill í því ljósi að það er mjög dýrt að leigja annað skip þegar nýja skipið þarf að fara í slipp eða einhvers konar skoðun, sem allar ferjur heims þurfa að fara í.

Oft snýst umræðan um þetta mál um tímann sem það tekur fyrir Vestmannaeyinga að komast til Reykjavíkur. Ég vil benda á að 80% ferðamanna sem koma til Íslands fara á Suðurland. Það eru þeir sem nýta Landeyjahöfn og þurfa að nýta þetta líka, þess vegna skiptir það miklu máli.

Þá vil ég segja að lokum að það eru mörg önnur mál sem varða samgöngur til Vestmannaeyja, til að mynda hvernig gjaldtökunni er háttað, hvort það sé sama gjald til Þorlákshafnar og til Landeyjahafnar, hvernig dýpkun hafnarinnar verður tryggð. Það er ýmislegt sem þarf að fylgja þessari ákvörðun í framhaldi. Ég lýsi mig tilbúinn til að takast á við það í umhverfis- og samgöngunefnd um leið og tækifæri gefst, þannig fylgjum við því máli eftir. Ég legg til að þetta mál verði samþykkt hér og um leið vonandi stigið stórt gæfuskref í samgöngum til Vestmannaeyja.